149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Svo ég sé eins skýr með það og ég get þá eru rökin sem ég finn í þessari tillögu fyrir breytingum einfaldlega: Af því að við þurfum þess, það eru að grunni til breytingartillögurnar. Viðurkenningin er að fyrri fjármálastefna gerði einfaldlega ekki ráð fyrir efnahagsniðursveiflu og þess vegna erum við stödd hérna. Ef gert hefði verið ráð fyrir niðursveiflu í fjármálastefnunni til að byrja með þyrftum við ekki að taka hana upp. Þá væri einmitt hægt að ganga á þetta óvissusvigrúm.

Ég held að það mætti alveg skilgreina óvissusvigrúmið aðeins víðar, út frá því hversu miklu munar á hagspánum og síðan raunveruleikanum eftir því hvernig hann breytist. Ef það er 2% niðursveifla í hagspá þá sé óvissusvigrúmið kannski 1% eða eitthvað því um líkt, kannski helmingurinn af, til þess að reyna að bremsa eitthvað á móti líka. (Forseti hringir.) En þetta er flóknara en svo og það skortir gagnsæi bæði í fjármálastefnu og fjármálaáætlun til þess að geta svarað því nákvæmlega því að það eru fleiri breytur sem taka þarf tillit til.