149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[18:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði um að hv. þingmaður hefði verið óþreytandi í því að benda á það sem betur má fara í kjörum öryrkja og kann ég honum þakkir fyrir það.

Mig langar í því sambandi að koma inn á það að í þessari stefnu á að hafa samráð, lögum samkvæmt, við sveitarfélögin. Það sem er áhyggjuefni í þeim efnum er að ríkisstjórnin hafði mjög takmarkað samráð þegar hún tók ákvörðun um að frysta, eins og það er orðað, framlög til jöfnunarsjóðs. Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar sagt að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun í þeim efnum en það er alveg klárt að sveitarfélögin mótmæltu því mjög og hafa miklar áhyggjur af því. Mig langar að koma inn á það við hv. þingmann hvort hann telji að þessi stefna geti leitt til þess að t.d. lögbundin verkefni sveitarfélaganna, eins og NPA, geti bitnað á þeim sem síst skyldi, þ.e. fötluðum og þeim sem sækja þá þjónustu og jafnvel, eins og hv. þingmaður minntist á, öryrkjum. Er þarna verið að taka ákveðna stefnu sem getur bitnað á þeim sem síst skyldi?