149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að það hafi endilega verið mistökin. Mistökin voru að afla ekki tekna fyrir þeim samhliða, vegna þess að í því felst líka aðhald. Eins og ég sagði áðan hefði líka verið hægt að skila meiri afgangi og mæta þessum niðurskurði núna. Ég tel hins vegar að ef ríkisstjórnin hefur engar aðrar leiðir til að vinna eftir eigin fjármálastefnu sé nauðsynlegt að hún fái leyfi til að breyta því. Út af fyrir sig eru breytingarnar kannski á þann veg sem við hefðum viljað sjá hana í upphafi. Við erum með þann flokk sem vill kalla sig mesta hægri flokkinn á þingi og við erum með flokkinn sem vill kalla sig mesta vinstri flokkinn á þingi. Þessir flokkar vilja stefna í tvær mjög ólíkar áttir. Þeir hafa ekki ráð núna til að vinna innan eigin stefnu og eru fórnarlömb þessarar ósamstöðu. En aðalatriðið er að við leggjumst núna á eitt og verjum velferðina í niðursveiflunni.