150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að spyrja um allt annað í seinna andsvari en ég verð eiginlega að fylgja eftir spurningu til hv. þingmanns. Ég þakka auðvitað fyrir fyrra svar en skildi ég það rétt að hv. þingmaður, með alla þá vinnu sem hún hefur lagt í að setja sig inn í þessi mál, hafi ekki séð rekstraráætlun fyrir almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu, að einungis hafi verið sýndar einhverjar sviðsmyndir? Liggur engin rekstraráætlun fyrir þannig að sveitarfélögin geti áttað sig á hvort þau sjái fram á verulega aukin fjárútlát eða ekki? Getur þetta hreinlega verið? Sviðsmyndir? Þetta hljómar eins og eitthvað sem hv. borgarstjóri myndi kalla rekstraráætlun en ég trúi því varla að ég sé að heyra þetta frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í málefnum almenningssamgangna og samgöngukerfis höfuðborgarsvæðisins. Vill hv. þingmaður vinsamlega staðfesta við mig að ekki liggi fyrir rekstraráætlun eftir að borgarlínumarkmiðum hefur verið náð, náist þau einhvern tíma. Getur það hreinlega verið?