139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mikla og hressilega ræðu eins og honum er einum lagið, vil ég meina, þegar kemur að því að ræða mál er varða þá ríkisstjórn sem hér starfar.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur allt í einu spunnist upp um þetta ólukkans Evrópusamband, sem mér finnst því miður eiga við um flestöll mál sem við fjöllum um á Alþingi, af því að þetta tengist allt saman einhvern veginn því apparati, hljótum við að geta spurt okkur og hv. þingmaður kannski svarað því hvers vegna ríkisstjórnin sem hann studdi á þeim tíma var á móti því að þjóðin fengi að ákveða hvort farið yrði í þetta ferli. Við hljótum að spyrja þá sem tala um þjóðaratkvæðagreiðslur: Af hverju var ekki spurt að því? Ég velti fyrir mér af hverju það hafi ekki verið gert. Í rauninni skil ég það ekki. Það hlýtur að vera alveg réttlætanlegt að spyrja það ágæta fólk sem býr hér á landinu um það.

Af því að áðan spannst upp umræða um það hvort þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um þetta mál eða ekki verð ég bara að segja hreint út að ég treysti hreinlega ekki Samfylkingunni til að standa við það í ljósi þess hvernig haldið hefur verið á málum. Við þekkjum svo sem dæmin líka frá formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Icesave-málinu frá 3. júní og 5. júní 2009.

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann út í skoðun hans á því að það hafi í raun verið látið viðgangast að málið komi svona inn í þingið, þetta mál sem við ræðum hér um, breyting á Stjórnarráðinu, þegar það er ljóst að það er mikil andstaða við það innan annars stjórnarflokksins og að mér sýnist hjá allri stjórnarandstöðunni.