144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem gerðist á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun var pólitískt reginhneyksli. Það er rétt að ég fari yfir atburðarásina þegar menn eru farnir að halda svona á málunum. Boðað er til fundar í nefndinni klukkan átta í morgun og þegar 21 mínúta er liðin af ætluðum fundartíma nefndarinnar hefur formanni nefndarinnar tekist að safna saman af göngum nefndasviðs nægilega mörgum þingmönnum til þess að geta tekið málið út með meiri hluta. Þannig er það gert. Verið er að taka ekki bara skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg, heldur líka af tveimur sveitarfélögum til viðbótar með tíu mínútna umfjöllun, ekki með neinum gestum, ekki með neinum umsögnum. Hvers lags vinnubrögð eru þetta eiginlega? Og að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson skuli koma hingað upp í ræðustól og hrósa sjálfum sér fyrir að hafa tekist að taka málið úr nefnd í morgun, eins og það sé afrek út af fyrir sig að taka mál úr nefnd, er auðvitað bara hlægilegt. Það er hlægilegt að verða vitni að svona (Forseti hringir.) vinnubrögðum.