144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1362, sem er 775. mál, um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Tillagan byggist á breytingu á 5. mgr. 8. gr. áðunefndra laga um stjórn fiskveiða sem samþykkt var á Alþingi á 143. löggjafarþingi, en þar segir að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð aflamagns til sérstakra ráðstafana í atvinnu-, byggða- og félagslegu skyni til næstu sex ára.

Tillagan sem hér liggur fyrir er unnin í samstarfi við fulltrúa þingflokka sem eiga sæti í atvinnuveganefnd. Vil ég hér sérstaklega þakka þeim öllum fyrir þá góðu vinnu sem þeir lögðu í þetta verkefni.

Með tillögunni eru lagðar til nokkrar breytingar á núverandi skipan mála og eru þær helstar þessar: Í tillögunni er gert ráð fyrir að ráðstöfun til atvinnu-, félags- og byggðatengdra verkefna verði hlutfall af því magni sem til ráðstöfunar verður en ljóst er að dregin verða 5,3% af úthlutun aflamagns allra kvótasettra tegunda til þessara verkefna. Heildarmagn verður ekki ljóst fyrr en ákvörðun um leyfilegan heildarafla liggur fyrir sem er ekki fyrr en í byrjun júlí að venju.

Lagt er til að strandveiðiheimildir verði sambærilegar og á yfirstandandi fiskveiðiári, þ.e. um 8.600 tonn. Skel- og rækjubætur verði lækkaðar um þriðjung, úr 2 þús. tonnum í 1.400 tonn, og stefnt að því að þær falli niður á næstu þremur árum. Lækkunin gangi til aukningar á byggðakvóta Byggðastofnunar. Heimildir til hefðbundins byggðakvóta verði einnig lækkaðar en í staðinn, líkt og áður sagði, verði aukið við aflamark Byggðastofnunar og aukningin verður alls um 1 þús. þorskígildistonn. Hefur Byggðastofnun þá til ráðstöfunar um 3.900 þorskígildistonn í verkefnið Brothættar byggðir sem skilað hefur góðum árangri.

Aflaheimildir til línuívilnunar eru óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári. 300 tonnum af þorski verður ráðstafað til frístundaveiða og reglur um þær verða óbreyttar. Hætt verði að ráðstafa heimildum til áframeldis á þorski þar sem ljóst þykir að þróun í fiskeldi hnígur ekki í þá átt. Þær makrílheimildir sem til ráðstöfunar eru verði seldar til veiða á grunnslóð og 800 tonnum af síld verði ráðstafað til smábáta undir tiltekinni stærð en til þess þarf tilheyrandi breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Að lokum nefni ég að ráðuneytið hefur gengið frá samkomulagi við Háskólann á Akureyri um að vinna skýrslu um framangreindar aðgerðir og leggja mat á hagkvæmni þeirra með tilliti til atvinnu-, byggða- og félagslegra þátta. Gert er ráð fyrir að skýrsla þessi liggi fyrir næsta vetur. Að henni fenginni geri ég ráð fyrir að lögð verði fram ný þingsályktunartillaga um þetta efni til næstu sex ára. Það er mín trú að nauðsynlegt sé að fara áfram vel yfir þessar ráðstafanir til að heimildunum sé ráðstafað þangað sem þær gera mest gagn.

Ég vísa að öðru leyti til þeirra athugasemda sem fylgja þingsályktunartillögunni en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni hennar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv atvinnuveganefndar.