144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að ekkert kerfi dugi mikið lengur en 20 ár og þetta kvótakerfi er orðið eldra en það og gott betur. Ég held að við þurfum stundum að hugsa á þann veg að við séum með hreint borð. Hvernig vildum við gera hlutina ef við værum með hreint borð, hvernig vildum við þá ráðstafa þessari auðlind?

Við Vinstri græn höfum lagt það fram, í okkar málefnavinnu á landsfundi, fyrir því eru landsfundarsamþykktir, að við vildum skipta þessu upp í þrjá hluta, aflaheimildum á Íslandsmiðum; að 1/3 hluti þeirra yrði byggðatengdur, 1/3 yrði á leigumarkaði og síðan hefðu sveitarfélögin ráðstöfunarrétt yfir 1/3. Þannig væri hægt að tryggja, með slíkri blandaðri leið, aðgengi að fiskveiðiauðlindinni með eins jöfnum hætti og hægt er að hugsa sér. Þar til viðbótar kemur auðlindarentan og veiðigjöldin sem rennur þá í ríkiskassann og deilist út til samfélaganna.

Við erum ekki alveg á byrjunarreit í þessu en ég tel að ýmislegt sé hægt að gera til að lagfæra núverandi kerfi þó að ég vildi helst af öllu henda öllum peningunum upp og byrja upp á nýtt. Stundum er heilbrigðast að gera það frekar en að vera að stagbæta ónýtt kerfi.

Varðandi síðasta frumvarp, sem var lagt fram í lok síðasta kjörtímabils, hefði ég aldrei samþykkt það ef ekki hefði verið þessi öflugi leigupottur sem átti að fara stækkandi sem jók aðgengi að greininni; nýliðar áttu þá auðveldara með að komast inn í greinina.