150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Reglurnar eru þannig að ekki er hægt að biðja um ræðu eða andsvar fyrr en ræða byrjar. Ég tók sérstaklega eftir því að þegar ég bað um andsvar þegar ræðan hófst komst ég ekki að vegna þess að aðrir voru stokknir af stað og búnir að biðja um andsvör áður en ræðan byrjaði. Þetta er einstaklega óheppilegt þegar það eru fimm flokkar í stjórnarandstöðu. Þetta hefur gerst oftar en einu sinni og ég held að það ætti tvímælalaust að taka tillit til þess, sérstaklega varðandi andsvör við ráðherra.

Ég ætlaði að spyrja ráðherra að ýmsu þegar hann kæmi hérna upp. Ég er að reyna að púsla saman upphæðunum í þessu: 25 ár, 100.000, 175.000 í afborgunargetu, 40 millj. kr. meðalfasteign, 410 samningar árlega, bara nýjar íbúðir. Allt púslast það þannig saman að ég finn ekki fólkið sem getur uppfyllt skilyrðin. Það má ekki standast greiðslumat. Það verður bara að geta staðist greiðslumat ef það á rétt á hlutdeildarláni. Og engir standa eftir, held ég, sem geta haft aðgang að þessum íbúðum.