140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Það er ekki út í bláinn að flestöll sveitarfélög hafa mótmælt þessum aðgerðum. Þeim er stýrt af ýmsum flokkum þannig að það eru ekki stjórnmál á bak við þetta. Ég held að þau sjái sína sæng upp reidda, að þetta muni skaða fjárhag þeirra allverulega strax og alveg sérstaklega til framtíðar.

Það verða miklar byltingar í útgerð við þessa breytingu. Það er búið að reikna út að fjöldi fyrirtækja verður gjaldþrota, þá missa starfsmennirnir vinnuna, m.a. sjómennirnir, og þá verða væntanlega stofnuð ný fyrirtæki sem ráða þá sjómennina, aðra sjómenn eða hvernig sem það nú er, kannski í öðru sveitarfélagi. Þetta býr til alveg óskaplega mikla óreiðu og óöryggi í öllu þjóðfélaginu. Það gerir hins vegar kröfu til þess að ávöxtunarkrafan á lán fyrirtækjanna hækkar sem og arðsemiskrafan á hlutaféð, þ.e. verðmæti hlutabréfanna lækkar og menn verða enn hræddari við þessa atvinnugrein en þeir hafa verið hingað til. Það er varla forsvaranlegt, frú forseti, að vinna svona og ég held að menn ættu að leggja bæði þessi frumvörp til hliðar og fara að vinna önnur mál. Ég hef sérstakan áhuga á að ræða hérna vandamál heimilanna og reyna að klára þau fyrir þinglok. Síðan væri hægt að vinna sjávarútvegsfrumvörpin í samstarfi við alla aðila. Ég vildi gjarnan að menn skoðuðu frumvarpið mitt um að dreifa kvótanum á þjóðina sem ég held að sé markaðskerfi alveg út í gegn. Þeir sem trúa á markaðinn ættu að styðja það.