150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[19:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir framsöguna. Það verður áhugavert og spennandi að fá þetta mál inn í velferðarnefnd til úrvinnslu. Ráðherra svaraði áður spurningu sem ég var að velta fyrir mér, af hverju þetta kemur svona seint fram. Það er komið svar við því og óþarfi að dvelja við það.

Svo ég nefni aftur séreignarsparnaðinn þá langar mig að fá hugleiðingar hæstv. ráðherra vegna þess að málið er honum skylt í þessu ráðuneyti. Deilir hann með mér þeim áhyggjum að það sé ákveðin tilhneiging til þess þegar svo ber undir og ef illa árar í efnahagslífinu að opna á séreignarsparnað fólks? Upphaflega var hann hugsaður til allt annarra hluta. Þegar þetta var fyrst gert fyrir 10–12 árum voru einmitt uppi viðvörunarraddir um að svo gæti farið að þorri fólks endaði starfsævi sína og væri þá búinn að nýta séreignarsparnaðinn sinn í alls konar hluti, ekki til að aðstoða sig á efri árum þegar starfsævi lýkur heldur til að þrauka (Forseti hringir.) meðan á starfi stendur.

Mig langar að heyra hugleiðingar hæstv. ráðherra um þetta tiltekna atriði.