150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru auðvitað ýmis sjónarhorn sem ræða má út frá sanngirni og réttlæti og íbúaþróun, að ákveðin hverfi eldist ekki heldur búi þar ungt fólk og alls konar fólk, tekjulágt, með millitekjur, tekjuhærra fólk og bara öll flóran á ákveðnum svæðum, að íbúarnir færist ekki endilega í úthverfin þó að alls staðar sé gott að búa ef aðbúnaður er góður. En svona upp úr þurru má velta fyrir sér hvort hægt væri að hafa ákveðið hlutfall af hlutdeildarlánunum bundið við nýbyggingar og annað mætti fara í eldra húsnæði. Það mætti alveg hugsa sér að það væri einhver skipting á milli, en í frumvarpinu eru þetta eingöngu nýbyggingar. Samtök atvinnulífsins halda því auðvitað vel til haga að þetta eigi við nýbyggingar og það er ákveðinn hluti af samningum aðila vinnumarkaðarins að tengja þetta svona saman. Það er líka „win-win“ að störfum fjölgar auðvitað þegar verið er að byggja. En ég hefði alveg getað hugsað mér að eitthvert hlutfall hlutdeildarlána mætti vera skilgreint líka fyrir kaup á eldra húsnæði á þéttbýlissvæðum.