132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það enn að ég er ekki í Framsóknarflokknum og ekki á leið þangað og ætla ekki að fara að svara hér og túlka einhverjar samþykktir þess ágæta flokks, með fullri virðingu fyrir honum. Það eru aðrir sem eru fullbúnir til þess, m.a. tveir hv. þingmenn sem viðstaddir eru þessa umræðu, þ.e. hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Ég ætla að biðja hv. þm. Jón Bjarnason um að reyna nú að fara að fjalla um efnisatriði málsins.

Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með hv. þingmann sem ég hef að öðru leyti nokkuð miklar mætur á, reyndar af öðrum ástæðum en pólitískum skoðunum hans. En ég var að vonast til að umfjöllun um málið milli 2. og 3. umr. mundi leiða til þess að hv. þingmaður kæmist nú upp úr þeim hjólförum sem hann var í hér við 1. og 2. umr., um að með þessu frumvarpi væri ætlunin að einkavæða Ríkisútvarpið.

Í 1. gr. frumvarpsins segir: „Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“ (Forseti hringir.) Með þeim breytingartillögum (Forseti hringir.) sem við erum að leggja til hér núna, meiri hluti nefndarinnar, erum við enn að skýra þessa annars (Forseti hringir.) skýru grein frumvarpsins.