144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin. Ég tek undir það með hv. þingmanni að byggðasjónarmið eru gríðarlega mikilvæg. Þá þurfum við einmitt að velta fyrir okkur: Hvernig nálgumst við byggðasjónarmiðin? Er það með gamaldags hugmynd um að það sé þá bara fínt að rífa upp eina stofnun með rótum og flytja hana með manni og mús, eða er það þannig að við viljum standa vörð um þá starfsemi sem þegar er á svæðinu?

Við erum með mikið af opinberri þjónustu víða um land, sem er hægt að efla og auka. Við erum með dæmi um nýsköpun eins og á Austurlandi þar sem Austurbrú er komin til, sem hefur reyndar átt í vandræðum af því að það hefði þurft meiri fjárstuðning við þá starfsemi. Þar er ákveðin starfsemi einmitt sett í einn klasa. Starfsemi sem væri lítil og veikburða ein og sér fær stuðning af annarri starfsemi á sama svæði og mun líka, ef vel er að málum staðið og almennilega staðið að fjárveitingum, leiða til nýsköpunar og kannski eðlilegri þróunar starfseminnar á staðnum.

Ég vil því ítreka að ég tel mjög mikilvægt að við höfum byggðasjónarmið í huga, hvernig við eflum byggðir. Byggð verður aldrei öflug og eftirsóknarverð nema þar sé fjölbreytt þjónusta og fjölbreytt tækifæri til starfa. En mér finnst í þessu gæta svolítið gömlu stóriðjuhugsunarinnar, að taka bara stofnun með manni og mús og þá sé búið að sinna byggðasjónarmiðum á meðan (Forseti hringir.) þarf að beita allt öðrum aðferðum til að ná raunverulegum árangri í fjölbreyttari störfum.