144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var gríðarlega mikill fókus, eðlilega, á 1. gr. Nefndin fékk á sinn fund starfsfólk, t.d. forstjóra Fiskistofu og stéttarfélög og fleiri út af þeim þætti vegna þess að það var bara svo illa að þessu staðið og stofnunin beinlínis í uppnámi. Það var því skoðað mjög ítarlega. Nú er ég áheyrnarfulltrúi í nefndinni þannig að ég er kannski með 80% mætingu, sit ekki alla fundi, en þetta bar á góma en alls ekki jafn ítarlega og hefði þurft að vera. Fyrst þegar ég las frumvarpið yfir þá sá ég ekki endilega að þetta væri mjög alvarlegt, kannski af því ég hugsaði að þetta væri enn ein nefndin sem væri kannski lítið að gera, það væri kostnaður og eitthvað slíkt. En eins og ég segi þá bendum við á þetta (Forseti hringir.) í minnihlutaálitinu. Við tökum kannski ekki mjög sterkt til orða, en við bendum á að þetta sé eitthvað sem við teljum að þurfi að skoða betur.