150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

afsögn formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

[15:03]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Alþingi er í eðli sínu átakavettvangur. Við tölum hér fyrir ólíkum sjónarmiðum, ólíkum hugsjónum og ólíkum hagsmunum. Þá er dálítið mikilvægt, þá varðar það öllu að við getum sýnt hvert öðru lágmarkskurteisi, að við virðum ákveðnar umgengnisreglur, ákveðnar reglur í mannlegum samskiptum, að við sýnum almenna háttvísi. En á það hefur skort í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Formanninum, hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, hefur verið gert ákaflega erfitt fyrir í starfi sínu innan nefndarinnar og ég sýni því fullan skilning sem hún hefur nú ákveðið að gera. Ég sé eftir henni. Ég mun sakna hennar. (Forseti hringir.) Ég vona að við komumst einhvern tímann á þann stað að hún geti aftur orðið formaður hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.