140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir að taka vel í það að kalla til fundarins hæstv. ráðherra og þingmenn sem þetta mál varðar sérstaklega. Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar og met það mikils að menn skuli vera tilbúnir að koma hingað upp og ræða það hvernig við leysum þetta mál. Satt best að segja hefur sá svipur sem hefur verið á umræðunni síðustu sólarhringa ekki verið sá að menn séu að nálgast hver annan heldur hefur spennan aukist og líkurnar á því að menn nái niðurstöðu minnkað með hverjum klukkutímanum og með hverjum deginum. Það er mikilvægt að höggva á hnútinn. En til að auka trúverðugleikann og traust milli manna verða menn að ganga fram af miklum heilindum og bæði stjórnarliðar og stjórnarandstaðan verða að vera tilbúin að setjast yfir málið og finna á því sameiginlega fleti. Ég hef trú á því að það sé hægt en þá verða menn líka að vera tilbúnir að gefa eftir á öllum vígstöðvum og ekki síst á þetta við um hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna ítreka ég að hæstv. forsætisráðherra komi hingað til fundarins.