145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að heyra það hjá hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ráðist verði í að taka ákvörðun um hvernig fara eigi með þessa tillögu. Frá mínum bæjardyrum séð hefur verið mjög óþægilegur dráttur á því að ákvörðun um það liggi fyrir. Við sem lifðum hrunið og búum við afleiðingar þess sem stjórnmálamenn vitum að oftsinnis koma fram ásakanir um það utan úr samfélaginu að Alþingi eða meiri hluti Alþingis sé að sópa þeirri tillögu undir teppið. Ég get hins vegar fallist á, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, að sú tillaga var mjög víðfeðm og óskýr og hefði verið erfitt að ráðast í hana, sér í lagi með hliðsjón af reynslunni af þeim tveimur nefndum sem áður hafa starfað, öðruvísi en að afmarka hana eitthvað frekar. En til þess hafa ekki verið heimildir eins og ég hef skilið það. Það er ekki fyrr en með samþykkt þessa frumvarps sem loksins er hægt að fara í það að afmarka tillöguna og skera úr henni það sem ekki er lengur í gildi. Gott og vel.

Eftir að hafa sagt það fagna ég því eigi að síður að með samþykkt frumvarpsins sem hér liggur fyrir mun forseti Alþingis fá í hendur tæki til þess að hafa veruleg mótandi áhrif á andlag slíkra tillagna. Það vald forsetans mun þá líklega koma í veg fyrir að í hita leiksins hlaupi menn til og samþykki í of miklum æsingi tillögur sem eru hugsanlega óframkvæmanlegar af því að þær eru svo víðfeðmar. En ég verð að segja það eins og ég sagði áðan að þessi tiltekna tillaga hefur ekki elst vel. Ef maður skoðar hana í dag sýnist mér sem mjög erfitt sé að útfæra (Forseti hringir.) hana eða framkvæma þau boð sem í henni eru bókstaflega. Ég hlakka (Forseti hringir.) til þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson leggi sinn atbeina að því að leggja þetta mál endanlega til einhvers konar hvílu að undangenginni rannsókn sem nefndin telur nauðsynlegt að fara í.