150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

afsögn formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég, eins og eflaust þið öll, er iðulega spurður að því hvernig ég nenni að vinna á þessum vinnustað þar sem eru svona mikil átök. Því hef ég svarað, eins og væntanlega mjög mörg ykkar, að birtingarmynd almennings af Alþingi sé fyrst og fremst þegar við erum að rífast hérna uppi í pontu, það sé myndin sem er sýnd. Hér tökumst við vissulega harkalega á og mér finnst það allt í lagi. Við gerum það hérna líka fyrir opnum tjöldum og það er allt skráð niður sem við segjum. Mér finnst hins vegar afskaplega dapurlegt að heyra það sem við erum að heyra núna. Flest okkar eru nefnilega það heppin að vinna í nefndum þar sem er talsverður friður og er gott að vera, þótt við deilum auðvitað ekki endilega sýn. Þess vegna hlýt ég að beina orðum til forseta Alþingis og annarra sem málið varðar, að farið verði rækilega yfir með hvaða hætti hægt er að laga þetta. Af því að þetta eru auðvitað mjög dapurleg tíðindi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)