150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór mikinn í ræðu sinni og talaði m.a. um að meiri hlutinn í borginni teymdi ríkisstjórnina á asnaeyrunum. Þá vil ég nota tækifærið og minna hv. þingmann á að einn af ríkisstjórnarflokkunum er jú í meiri hluta í borginni og samkomulag vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er á milli ríkis og sveitarfélaga, bæði borgarinnar og sveitarfélaganna í kringum Reykjavík, í Suðvesturkjördæmi. En þeim sveitarfélögum er stýrt af Sjálfstæðisflokknum þannig að það er ekki alveg rétt hjá honum að meiri hlutinn í borginni teymi ríkisstjórnina heldur er þetta bara eðlilegt samstarf allra aðila; ríkis, borgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að koma með smáathugasemdir við umsögn hv. þingmanns. Hann gerir ekki athugasemdir við þann hluta samkomulagsins, samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem snýr að afar tímabærri uppbyggingu stofnbrauta, (Forseti hringir.) göngu- og hjólastíga og átaki í umferðarstýringu. Hins vegar virðist hv. þingmaður hafa allt á hornum sér varðandi borgarlínu. Þó er það svo að borgarlína mun létta hér (Forseti hringir.) á umferð og draga úr mengun og auka flæði samgangna og umferðar. (Forseti hringir.) Ég átta mig því ekki alveg á því af hverju allt þetta hatur í garð borgarlínu (Forseti hringir.) sem maður sér í umsögninni og í máli hv. þingmanns, eða illindi, fyrirgefið, hæstv. forseti, stafar. (Forseti hringir.) Ég myndi gjarnan vilja vita hvers vegna hv. þingmaður tekur borgarlínu sérstaklega út úr, (Forseti hringir.) hvað hann hefur á móti borgarlínunni sjálfri.

(Forseti (HHG): Forseti neyðist til að minna hv. þingmenn á að virða hin skörpu tímamörk.)