149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:05]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvort við séum að verða hér vitni að einhverju leikriti því að samkvæmt starfsáætlun átti þingið vera komið í sumarleyfi núna. Burt séð frá málþófi Miðflokksins vekur það eftirtekt að við höfum ekki enn þá fengið tillögur ríkisstjórnarinnar inn í fjárlaganefnd um breytingar á fjármálaáætlun. Fjármálaáætlun er stærsta mál þingsins, áætlun upp á 5.000 milljarða. Nú liggur fyrir að ný þjóðhagsspá barst nefndinni fyrir meira en mánuði og við höfum ekki enn fengið nein viðbrögð ríkisstjórnar í þessu stóra máli.

Ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin sé einfaldlega að kaupa sér tíma vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir nái hugsanlega ekki saman um breytingar á því lykilplaggi ríkisstjórnarinnar sem fjármálaáætlun er. Ég spyr hæstv. forseta hvort við séum hér látin taka þátt í einhverju leikriti af hálfu flokkanna sem ná sér ekki saman um ríkisfjármálaáætlun. Þetta kemur málþófi Miðflokksins ekki við. Það er ótrúlega sérkennilegt að þessar tillögur liggi ekki fyrir og hafi ekki borist fjárlaganefnd sem er búin að vera að fjalla um fjármálaáætlun, þessa gömlu, í tæplega þrjá mánuði.