150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034, 14–15 ára tímabil. Ég taldi að gamni mínu blaðsíðurnar í nefndaráliti meirihlutans ásamt breytingartillögum og tillögum til þingsályktunar. Þetta eru rétt rúmar 100 bls. og hinn besti reyfari. Þetta er eins og með góðar bækur. Það er sannleikskorn í þessu, það eru draumórar og það er alger vitleysa.

Í upphafi nefndarálitsins kemur fram að fjárfesting í vegakerfinu einu er 400 milljarðar. Þetta eru gífurlegar upphæðir. En ef við setjum það í samhengi við það sem við vitum að á að henda inn í borgarlínuna strax í fyrsta áfanga, 120 milljarðar í eitthvað sem eiginlega enginn veit hvað er, er það algert glapræði. Það er búið að skipta samgönguáætlun þannig upp að það er ákveðin fimm ára áætlun og síðan 15 ára áætlun. Í fjárlögum er reiknað með að heildarpakkinn sem kemur fram í þingsályktunartillögunni sé 637 milljarðar og þar af eru vegamálin um 560 milljarðar. Þetta eru gífurlegar upphæðir ef við horfum á þær í ljósi þess að lagt er upp með einkaframkvæmdir í þessari vegaáætlun. Í nefndaráliti meiri hlutans segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Lagði meiri hlutinn áherslu á þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.“

Þarna er verið að feta leið gjaldtöku og við vitum líka að gert er ráð fyrir mörgum einkaframkvæmdum í vegáætlun sem gæti reynst okkur gífurlega dýrt. Það segir sig sjálft að þeir sem ætla að byggja þetta í einkaframkvæmd vilja fá allt sitt til baka með vöxtum og vaxtavöxtum og góðum gróða þannig að gjöldin gætu orðið há og ég tala ekki um þegar á að fara að taka gjald á mjög fáförnum vegi, eins og kom fram í umræðu hér á þingi um að það ætti að taka gjald á veginum yfir Öxi fyrir austan. Og ef það hefði átt að standa undir kostnaði segi ég bara, guð hjálpi hverjum þeim sem hafði ætlað sér að keyra þar. Sá hinn sami hefði alveg örugglega farið 60 km lengri leið til að sleppa við þau gígantísku gjöld sem hefði þurft að borga til að standa undir kostnaði. Þar af leiðandi er það ekki raunhæft.

En einhvern veginn verður að fjármagna framkvæmdir ef allt á að ganga eftir og það verður að mörgu leyti höfuðverkur. Eins og staðan er á alþjóðlegum lánamörkuðum væri auðvitað eðlilegast að ríkið tæki lán fyrir framkvæmdum, setti í útboð og tæki þar af leiðandi lán á mjög hagkvæmum kjörum. Lánakjörin hafa aldrei verið betri en núna. Það myndi kannski draga verulega úr kostnaði og í útboði væri vonandi barist um framkvæmdirnar og þær yrðu mun hagkvæmari fyrir vikið.

Þetta er eiginlega risaverkefni og sum þessara verkefna eru mjög brýn og góð eins og jarðgöng. Sérstaklega eru mikilvæg jarðgöngin fyrir austan. Fjarðarheiðargöngin eru eitt af því sem þarf að fara í og þau eiga að vera eitt af forgangsmálum. Síðan þurfa auðvitað göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar að fylgja. Þetta er, sem betur fer, eitt af þeim málum sem eru á áætlun. Það sýnir hversu mikil þörf er fyrir jarðgangagerðina að í nefndaráliti meiri hlutans eru talin upp 10–11 jarðgöng. Þar eru t.d. Skutulsfjörður–Álftafjörður eða Ísafjörður–Súðavík, Siglufjörður–Fljót, Múlagöng, Lónsheiði, Tröllaskagi, Vopnafjörður–Hérað, Hálfdán, Miklidalur, Kleifaheiði og Vestfjarðagöng, breikkuð. Og síðan er tvöföldun Hvalfjarðarganganna auðvitað líka þarna inni og hinn draumkennda Sundabraut. Ég kalla hana draumkennda vegna þess að hún er svo fjarlægur draumur, hún er alltaf í umræðu og alltaf í skoðun en það gerist eiginlega ekki neitt.

Eitt af því sem er mjög athyglisvert í nefndarálitinu og mjög þarft að mörgu leyti er hringvegur um Heiðarsporð eða Biskupsbeygja. Þar á að lagfæra hættulegan stað á vegi þar sem er mikil umferð. Vegaframkvæmdum við Þverárfjall um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá á að flýta um tvö ár. En merkilegast af öllu er að viðbótarframlagi verður varið til breikkunar á einbreiðum brúm í vegakerfinu. Það merkilegasta er kannski að við erum enn þá með 36 einbreiðar brýr á hringveginum og þarna er verið að tala um að fækka þeim um átta. Þá eru samt enn þá 28 eftir sem er ekki ásættanlegt vegna þess að einbreiðar brýr eru ekki nema 4 metrar á breidd og stundum mjórri. Þar þarf að keyra á 50 km hraða og þetta eru algjörar slysagildrur. Við þurfum líka að taka slys á vegum með í reikninginn. Þau reynast okkur gífurlega dýr og þess vegna er nauðsynlegt að einbreiðar brýr á hringveginum heyri sögunni til. Ég hefði talið það metnaðarfullt plan í svona áætlun að hreinlega eyða þeim algerlega. Við hefðum átt að hafa það á áætlun að taka þær út á fimm til tíu árum en svo gott er það ekki.

Ég fór í andsvör við hv. framsögumann nefndarálits meiri hlutans. Þar kom fram að áætluð er uppbygging á Akureyrarflugvelli, eða eins og segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Undirbúningur er hafinn að uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem felur í sér að flugstöðin verður stækkuð ásamt flughlaði. Þær áætlanir styrkja stöðu Akureyrarflugvallar sem mikilvægrar gáttar inn í landið og styðja við ferðaþjónustu og samgöngur til og frá landinu. Með fjárfestingarátaki 2020 var samþykkt viðbótarfjárveiting til framkvæmda á Akureyrarflugvelli, á flughlaðinu annars vegar og flugstöðinni hins vegar. Nefndin lýsir ánægju með þá innspýtingu og leggur til breytingar á töflu 5 í fimm ára samgönguáætlun og töflu 2 í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 til samræmis við fjárfestingarátakið, sbr. þingsályktun nr. 28/150 og viðauka hennar. Þannig verði 200 millj. kr. varið til flugstöðvarinnar og 300 millj. kr. til flughlaðsins árið 2020. Þá leggur nefndin áherslu á að framkvæmdaáætlun verkefnanna verði fylgt eftir á árunum 2021–2024, sbr. kafla um áherslur nefndarinnar.“

Þarna er ekki fjallað um ratsjárbúnað og ljóst er að það fé sem veitt er mun ekki renna til endurnýjunar á honum heldur til framkvæmda á flughlaði. Staðreyndin er nefnilega sú að ratsjárbúnaður á Akureyrarflugvelli er kominn til ára sinna og er vandlega fylgst með virkni hans. Áætlaður endurnýjunarkostnaður nemur 1.000 millj. kr. og hann er ekki inni í samgönguáætlun. Það er auðvitað mjög slæmt vegna þess að þarna er um gífurlega nauðsynlegan öryggisbúnað að ræða og mér fyndist alveg sjálfsagt að hann verði þarna inni. Og ég trúi því vegna þess að hv. þm. Vilhjálmur Árnason, framsögumaður nefndarálitsins, sagði að það yrði eitt af því sem þeir myndu skoða vandlega. Ég trúi því vel að það verði gert.

Nefndin leggur til ýmsar breytingar á samgönguáætlun, t.d. um Krýsuvíkurveg–Hvassahraun, að framkvæmdir færist á fyrsta tímabil áætlunarinnar. Það er gífurlega mikilvægt. Það er löngu tímabært að klára Reykjanesbrautina vegna þess að þetta er einn fjölfarnasti og hættulegasti vegur landsins. Sem betur fer er nú verið að klára að tvöfalda veginn frá Krýsuvíkurafleggjara þannig að hann verði orðinn tvíbreiður alveg inn að Kaplakrika og þegar Krýsuvíkurvegur og Hvassahraun eru að baki á eiginlega bara eftir að gera tvíbreiðan veg frá Njarðvíkum og inn að Keflavíkurflugvelli. Í nefndarálitinu kemur fram að breikkun og aðskilnaði akstursstefnu á leiðinni Bæjarás–Vesturlandsvegur verði flýtt og verkefninu fulllokið árið 2021, sem er mjög gott. Þar segir einnig:

„Breiðholtsbraut: Hringvegur–Jaðarsel, fjármagn í undirbúning og hönnun. Reykjanesbraut: Fjarðarhraun–Mjódd, fjármagn í undirbúningi og frumdrög að breikkun Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd [...] Snæfellsnesvegur um Skógarströnd. Framkvæmdin færist að hluta á 1. tímabil.“ — Það er mjög gott. — „Borgarfjarðarvegur, Eiðar–Laufás. Framkvæmdum við veghlutann verði flýtt. Framkvæmdum við Þverárfjallsveg um Refasveit og við Skagastrandarveg um Laxá verði flýtt um tvö ár [...] Til samræmis við fjárfestingarátakið leggur nefndin því til þá breytingu að 1 milljarður kr. bætist við fjármagn til framkvæmda við tengivegi á árinu 2020.“

Þetta er bara hið besta mál. En stærsta og umdeildasta málið í þessu er hin svokallaða borgarlína sem er alveg sér fyrirbrigði. Við vitum hvernig samgöngukerfið hefur verið með Strætó. Það er ekki gott og það er ekki heldur gott að reyna með alls konar hindrunum að þrengja að einkabílnum og pína fólk til að nýta sér strætóleiðina. Það er ekki rétt. En það sem er enn þá verra er að hér er í raun um það að ræða að ríkið á að greiða 45 milljarða með verkinu. Flýti- og umferðargjöld verða innheimt fyrir um 60 milljarða en sveitarfélögin greiða aðeins 15 milljarða. Borgarlínan er fyrst og fremst í þágu þeirra íbúa höfuðborgarsvæðisins sem ekki eiga bíl og hún verður að mestu leyti fjármögnuð með því að skattleggja ökumenn en auk þess með fjármagni ríkissjóðs, sem sagt með veggjöldum. Þetta er eiginlega hið undarlegasta mál vegna þess að enn einu sinni er komin upp sú furðulega staða að selja á land, í þessu tilfelli Keldnaland, til að standa undir kostnaði að stórum hluta. Ef það gengur ekki alveg upp verða sett veggjöld fyrir mismuninum. Þetta er algert lottó og við vitum líka og þekkjum af fyrri reynslu að þegar á að selja eitthvað og eyrnamerkja það einhverju öðru hefur það ekki reynst vel. Við þekkjum það frá símamálinu, þegar Síminn var seldur. Þar átti fé að fara í Landspítala – háskólasjúkrahús og við vitum hvernig því lauk. Þeir peningar gufuðu upp. Ég er mjög hræddur um að svipuð uppákoma gæti orðið í þessu máli. En alvarlegastar finnast mér þær gífurlegu fjárhæðir sem á að byrja að setja í þetta. En því miður er skipulagið á borgarlínunni ekki komið á neinn vitbæran stað þannig að það séu raunverulegar áætlanir um hvernig þessi blessaða borgarlína á að virka.

Undanfarið hafa allar lausnir á þessum gífurlega umferðarvanda í Reykjavík, þar sem fólk situr fast á leið úr og í vinnu frá hálftíma til klukkutíma að sumri til og alveg upp í tvo, þrjá tíma á veturna, bara aðra leiðina, verið borgarlína, en það að láta þessar tafir viðgangast áfram bara til að pína fólk til að fara í borgarlínuna gengur ekki upp. Það er útilokað. Við verðum að sjá til þess að málin verði leyst. Það er talað um að betra stýrikerfi á ljósum geti flýtt fyrir en raunverulegar umbætur og lausnir væru t.d. að leggja Sundabraut, leggja ofanbyggðaveg og koma á vegi t.d. í Skerjafirði, í gegnum skerjagarðinn, inn að flugvallarsvæðinu, en slíkar lausnir eru hvergi í bígerð. Nema Sundabrautin en hún er bara sett inn sem gulrót. Meiri hlutinn í Reykjavíkurborg þrengir alltaf að Sundabraut og ég held að hann vilji ekki (Forseti hringir.) að hún komi á neinn hátt, hún komi aldrei til framkvæmda.