150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ágætt andsvar. Ég er svo sem ekkert hissa á því að margt í ræðunni hafi vakið furðu enda einbeitti ég mér að því að lesa upp úr samgöngusáttmála ríkisstjórnarinnar, en tók reyndar fram að miklar breytingar hefðu orðið í nefndinni og mjög margar þeirra til mikilla bóta. Eins og ég gat um mun ég fjalla um það hér í seinni ræðu en taldi rétt að leggja grunninn með því að vísa í samgönguáætlunina eins og hún birtist.

Svo spurði hv. þingmaður sérstaklega út í afstöðu mína til skosku leiðarinnar. Ég hef marglýst því yfir að ég sé hlynntur skosku leiðinni ef menn leggi sama skilning í það og ég hvað átt er við með skosku leiðinni, þ.e. að opinber stuðningur verði við innanlandsflugið og litið á það sem mikilvægan þátt í almenningssamgöngum á Íslandi. En útfærsluna hefur alveg vantað á því hvað ríkisstjórnin telur að skoska leiðin sé. Skoska leiðin í Skotlandi, eins og ég nefndi, snýst bara um að styðja fólk á ákveðnum fámennum stöðum en ekki um almennan stuðning við samgöngur milli mikilvægra byggðarlaga í Skotlandi. Hv. þingmaður spurði hvort ég vissi hversu margir staðir væru undanskildir; ég held að það sé miklu einfaldara að telja einfaldlega (LínS: Ég talaði um flugleiðir.) upp staðina — já, hvaða flugleiðir væru undanskildar — sem eru með; flugleiðir til og frá hvaða stöðum átt sé við, við íbúa hvaða staða verið er að miða. (Gripið fram í.) Það eru íbúar á sex stöðum sem verið er að miða við, m.a. á þessum fámennu eyjum Colonsay með124 íbúa og Jura með 196 íbúa. Alls eru það 70.000 íbúar í milljóna manna landi sem geta nýtt sér þessa leið, íbúar á alafskekktustu stöðunum.