150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er kannski þrennt og það fyrsta nefndi ég aðeins í ræðu minni, mér sýnist á öllu vera töluvert áhugaverðir hlutir að gerast í framþróun flugs á næstu árum og áratugum jafnvel sem gætu samhliða ákveðnum regluverksbreytingum opnað á að þessir lendingarstaðir yrðu mun gagnlegri fyrir samfélögin en þeir eru í dag. Það er eitt og það er kannski framtíðarástæða til að viðhalda þeim frekar en nútímaástæða. Hinar tvær ástæðurnar eru nútímaástæður, annars vegar að u.þ.b. 6.000 manns eða svo hafa fengið flugréttindi á Íslandi, ég man nú ekki alveg tölurnar en það eru töluvert margir á Íslandi sem fljúga, bæði sem flugáhugamenn og sem farþegar og annað og þetta er hópur sem er að vaxa. Ef þetta fólk flýgur yfir landið og lendir í vélarbilun eða í einhverju öðru veseni, þá þarf það hreinlega að lenda á þeim flugvelli sem er næstur. Stundum er það ekki einu sinni í boði og þá kemur lending á þjóðvegi til greina eða bara hvar sem er í rauninni. Bara sem flugöryggisatriði skiptir það máli fyrir fólk sem er að ferðast um, jafnvel milli stærri flugvalla, vegna skemmtanalífs eða vinnu eða hvað sem það er.

Hitt er að þegar maður horfir á samfélög eins og t.d. Stykkishólm eða Höfn í Hornafirði, sem er að vísu með stærri flugvöll, eða hvar sem er, t.d. Þórshöfn eða Raufarhöfn, þá erum við að leggja mikla peninga (Forseti hringir.) í að reyna að viðhalda og styrkja þessar byggðir og (Forseti hringir.) þetta er eitt af því sem getur verið notað til þess ef við förum að beita (Forseti hringir.) þessu á réttan hátt. En við höfum ekki verið að gera það.