131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Samningur ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Líbanons.

722. mál
[14:37]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Líbanons sem undirritaður var í Montreux í Sviss þann 24. júní 2004.

Samningurinn við Líbanon kveður á um tollfrjáls viðskipti með iðnaðarvörur, þar með talinn fisk og aðrar sjávarafurðir. Þegar samningurinn öðlast gildi munu EFTA-ríkin afnema alla tolla og aðrar hindranir að því er varðar þær vörur sem samningurinn tekur til en Líbanon mun afnema tolla á tilteknu aðlögunartímabili sem hefst árið 2008 og lýkur árið 2015. Tollar á sjávarafurðir munu þó falla niður að langmestu leyti árið 2008.

Ákvæði eru einnig í samningnum um vernd hugverkaréttinda, þjónustuviðskipti og úrlausn deilumála. Í samningnum er ekki fjallað heildstætt um fjárfestingar og var því samhliða gerður sérstakur tvíhliða samningur milli Íslands og Líbanons um vernd fjárfestinga.

Samhliða fríverslunarsamningi gerðu EFTA-ríkin hvert og eitt tvíhliða landbúnaðarsamning um tollalækkanir fyrir ýmsar óunnar landbúnaðarvörur eins og tíðkast hefur við gerð fríverslunarsamninga. Viðskipti milli Íslands og Líbanons eru ekki mikil í dag en tækifærin eru fyrir hendi. Reynslan sýnir að viðskipti aukast oft í kjölfar fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert í félagi við hin EFTA-ríkin þannig að þeir hafa virkað hvetjandi á viðskipti milli aðildarríkja samningsins.

Að samningnum við Líbanon meðtöldum hafa EFTA-ríkin nú gert fríverslunarsamninga við 13 ríki með samtals rúmlega 280 millj. íbúa en til viðbótar samning við Evrópusambandið. Enn fremur var undirritaður samningur við Túnis í desember 2004 og bíður hann fullgildingar samningsaðilanna.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.