135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:46]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér bráðabirgðalögin um Viðlagatryggingu Íslands. Það er okkur minnisstætt sem vorum hér á Alþingi í maímánuði, 29. þess mánaðar, að upplifa þá atburði sem áttu sér stað. Á þeim tíma sat sá er hér talar á forsetastóli og gleymir því væntanlega seint hvernig honum varð innan brjósts. Það á örugglega einnig við um þúsundir Sunnlendinga sem upplifðu þennan voðaatburð.

Hér í dag er búið að tala fyrir frumvarpi um þessi bráðabirgðalög. Þingmenn frá stjórnarandstöðunni hafa komið hér upp og gert að umtalsefni þá aðferð að ríkisstjórn noti bráðabirgðalög og hafi þau með þeim hætti sem hér hefur verið greint frá og raunin er. Ég vil ekki fara ofan í þau mál, það er sérmál hvernig menn líta á bráðabirgðalög yfir höfuð og hvort verið sé að mismuna í þessu tilfelli frekar en áður hefur verið gert. Ég vil ekki fara út í þá umræðu. Mér finnst hún ekki eiga við í þessu máli en skil þó að þingmenn vilji láta koma fram hver hugur þeirra er almennt til bráðabirgðalaga.

Um þessi lög vil ég segja að þau sýna að ríkisstjórnin brást mjög skjótt við. Á ríkisstjórnarfundi 30. maí, daginn eftir atburðina, var að frumkvæði forsætisráðherra strax ákveðið að starfræktar skyldu tímabundið þjónustumiðstöðvar eftir jarðskjálftana. Nú er sú þjónustumiðstöð á Selfossi en þar var íbúum svæðisins gefinn kostur á að koma og fara yfir sín mál. Meðal þeirra sem komu að þessum þjónustumiðstöðvum var Rauði krossinn. Sveitarfélögin réðu Ólaf Örn Haraldsson, fyrrverandi alþingismann, til verksins og starfar hann á þjónustumiðstöðinni á Selfossi ásamt öðrum starfsmanni. Þar er það besta gert fyrir fólk sem varð fyrir tjóni, þ.e. þar er það upplýst. Þegar vá sem þessi kemur upp er fólk auðvitað í sjokki, það þarf aðstoð og hún hefur verið veitt á mjög myndarlegan hátt eftir þessa atburði. Ég held að við eigum að draga slíka þætti fram en ekki fara út í samjöfnuð eins og ég hef aðeins heyrt hér í morgun.

Við Íslendingar erum þekktir fyrir að vera sveigjanlegir og snöggir að bregðast við þegar aðstæður breytast og þegar þessi mikli jarðskjálfti varð breyttust þær svo sannarlega. Við höfum jafnframt öðlast reynslu, m.a. af jarðskjálftunum 2000 og annarri náttúruvá eins og snjóflóðum, og við höfum í rauninni fetað þessi skref smám saman allt frá því að eldgosið í Vestmannaeyjum varð. Við höfum búið löggjöfina betur út þannig að íbúar samfélags okkar á Íslandi geti treyst því að þegar óvæntir atburðir verða, eins og náttúruhamfarir, sé tekið á þeim málum með þeim hætti að fólki finnist það vera öruggt. Við Íslendingar eigum að vera stolt af því að hafa búið þannig um hnútana.

Við megum hins vegar ræða og hafa í huga að net eins og Viðlagatrygging Íslands má aldrei verða til þess að einstaklingar og fjölskyldur tryggi ekki eignir sínar á hinum almenna tryggingamarkaði, hvort sem um er að ræða lausafjármuni eða íbúðarhús. Þar eru að sjálfsögðu ákveðnar skyldutryggingar en einnig eru í boði viðbótartryggingar og við eigum að hvetja til þess og ýta undir að einstaklingar kaupi sér þær tryggingar sem þeir kjósa hverju sinni.

Þegar atburðir sem þessir verða eigum við ekki að hika heldur bregðast við eins og á þarf að halda og eins og hér hefur komið í ljós með lausafjártryggingu sem bundin var byggingarvísitölu. Stíll okkar Íslendinga er nákvæmlega að bregðast við þegar á þarf að halda og það hefur verið gert.

Við þurfum að fara yfir mörg önnur mál í kjölfar þessa atburðar og þess ef bráðabirgðalögin hljóta samþykki á Alþingi og verða gerð að lögum. Það þarf að taka tillit til fleiri þátta og mig langar til að tæpa á þeim í örfáum orðum.

Bæði forsætisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti hafa starfshópa í gangi sem fara yfir þessi mál og munu væntanlega koma með frekari úrlausnir er varða þessa lagasetningu.

Ýmis vafamál hafa komið upp varðandi bætur, til dæmis hafa hús á frumbyggingarstigi ekki verið tekin út til fasteignamats og eru þar af leiðandi ekki tryggð hjá Viðlagatryggingu. Þessi hús geta verið á mismunandi byggingarstigi, allt frá einingahúsum sem sett eru saman á stuttum tíma til húsa sem verið er að byggja. Hús sem hafa verið endurbyggð verulega á síðasta eða þarsíðasta ári hafa ekki farið inn í nýtt fasteignamat. Þau hafa ekki endilega verið tekin til endurmats og eru því kannski of lágt metin þegar tjónið verður.

Þannig má nefna fjölmörg dæmi. Við vitum að íbúðarhús hafa stækkað, ef ég má orða það svo, út í garðana þegar byggðir eru pallar. Þeir eru oft mikil mannvirki og geta verið gríðarleg verðmæti. Eru þeir inni í þessari tryggingu eða ekki? Mér skilst að svo sé ekki og því þarf að ræða hvort mannvirki sem tilheyra húsum eigi að vera inni í tryggingunni.

Eins og ég sagði áðan tel ég að ríkisstjórnin hafi gengið skörulega fram í þessu máli, annars vegar með því að ákveða strax 30. maí að koma á fót þessum þjónustumiðstöðvum og í framhaldi af því ráða starfsmenn til verksins. Sveitarfélögin stóðu mjög myndarlega að þessum málum. Þau héldu íbúafundi með lögreglustjórum og björgunarsveitum, Rauða krossinum og fleiri aðilum þar sem farið var yfir málin og íbúunum gefinn kostur á að fá upplýsingar um hvernig skyldi farið með tjónið. Mér finnst, þótt ég vilji ekki blanda of miklum tilfinningum inn í þetta mál, að menn verði að átta sig á því að bráðabirgðalög af þessum toga eru gríðarlega mikið tilfinningamál fyrir fólk sem hefur kannski misst allt sitt innbú og íbúðarhús, nánast aleiguna. Ef viðkomandi aðilar hafa verið búnir að endurnýja húsin mikið getur aleiga þeirra nánast legið undir. Mér finnst ekki óeðlilegt að í okkar sterka samfélagi sé reynt að gera það besta fyrir þá einstaklinga sem lenda í slíku tjóni.

Tjónauppgjörið gekk gríðarlega hratt og var vel unnið. Að þessu sinni var það gert í samstarfi við tryggingafélögin sem voru snögg að meta lausafjártjónið og þau voru greidd út, að ég hygg, eftir tvær til þrjár vikur að meginhluta til. Fyrst við getum státað af slíku uppgjöri er ljóst að við höfum komið upp sterku öryggisneti á Íslandi. Það tekur einfaldlega lengri tíma að meta tjón á fasteignum en það verður gert upp síðar. Það er eðlilegt mál.

Eins og ég gat um í andsvari mínu áðan, frú forseti, þá er málum þannig háttað að tjón geta komið fram á löngum tíma. Það er kannski sýnilegast á þjóðveginum undir Ingólfsfjalli þar sem sprungur og mishæðir hafa komið fram nánast vikulega. Á næstu árum munu örugglega koma fram einhverjir skaðar á íbúðarhúsum á upptökusvæði jarðskjálftanna 29. maí á Suðurlandi. Heimilt er að tilkynna slík tjón alveg til ársins 2012, sem er að mínu mati rúmur tími, og endanlegur fyrningartími er síðan 10 ár frá tjóni.

Ég held, frú forseti, að við eigum að læra af þessum náttúruhamförum, því regluverki sem verið er að setja upp og þeirri aðferðafræði sem notuð hefur verið allt frá því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um þessa þjónustumiðstöð, íbúafundunum og því hve vel gekk að meta og greiða út lausafjártjónið. Síðan eigum við eftir að sjá hve langur tími fer í að ganga frá fasteignunum. Auðvitað munum við eftir á reyna að haga okkar lagasetningu þannig að við stöndum okkur sem best og verðum tilbúin þegar önnur áföll dynja á í samfélagi okkar. Því miður búum við í landi þar sem eru eldar, ísar, jarðskjálftar og annars konar náttúruvá og við verðum að vera sterklega undir það búin að geta aðstoðað fólk þegar svona ber undir eins og gerðist 29. maí.