143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[17:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar örstutt að leggja orð í belg í tengslum við umræðu um þingsályktunartillögu um mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að hafa frumkvæði að flutningi tillögunnar. Flutningsmenn eru úr öllum þingflokkum. Auk hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar eru flutningsmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Óttarr Proppé.

Ég þakka líka hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar og framsögumanni nefndarálitsins, fyrir að vinna að því að málið fengist afgreitt úr utanríkismálanefnd með umræðum þar og gestakomum. Ég tek undir þá breytingu sem nefndin leggur til. Ég var sjálfur fjarverandi á fundi utanríkismálanefndar þegar málið var afgreitt en hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sat fundinn fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna og stendur að þessu nefndaráliti og breytingartillögu.

Fyrir stuttu ræddi ég í þingsal um mannréttindi og mannréttindabrot og vakti máls á málefnum ungra stúlkna í Nígeríu. Ég hafði þá á orði að það væri mikilvægt að við gerðum okkur grein fyrir að mannréttindi væru algild. Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 er kveðið mjög skýrt á um að allir eigi að njóta mannréttinda án nokkurrar mismununar og þau séu algild. Öll ríki sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum hafa undirgengist þessa mannréttindayfirlýsingu.

Því miður er engu að síður allt of víða í heiminum mikill misbrestur á því að mannréttindi séu virt. Við Íslendingar höfum að sjálfsögðu látið okkur mannréttindamál talsverðu varða og mannréttindi hafa verið einn af hornsteinunum í utanríkisstefnu okkar, að berjast fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi og sömuleiðis í stefnumótun okkar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Mér finnst mikilvægt að við höldum ávallt á lofti baráttu fyrir mannréttindum, hvar sem er og hvenær sem er. Alþingi er svo sem ekki á hverjum degi að senda frá sér ályktanir sem lúta að mannréttindabrotum hér og þar um heiminn þó að það væri áreiðanlega hægt ef menn ætluðu að hafa allt undir og taka á öllu. Við höfum kannski ekki tök á því, en af og til tökum við okkur til á Alþingi og samþykkjum ályktanir til varnar mannréttindum.

Sá hópur sem hér er sérstaklega verið að fjalla um, samkynhneigðir í Úganda og það á við um samkynhneigða víðar í Afríku, sætir ofsóknum. Málefni samkynhneigðra hafa af og til verið til umfjöllunar á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en það er ekki til alþjóðlegur sáttmáli um þá eins og sáttmáli um réttindi barnsins, sáttmáli um réttindi fatlaðra eða sáttmáli um efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi. Það er ekki til sáttmáli sérstaklega sem lýtur að málefnum samkynhneigðra en í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir felur Alþingi í síðustu málsgreininni utanríkisráðherra að kynna þeim ríkjum sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda, einkum Norðurlöndunum, afstöðu þingsins og leita samstöðu um að fleiri ríki hagi viðbrögðum sínum með sama hætti.

Ég tel enn fremur að þetta sé málefni sem við gætum sömuleiðis hvatt til að íslensk stjórnvöld tækju upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna enn á ný. Ég veit að það hefur verið gert en þetta er málefni sem þarf að halda á lofti, líka í samskiptum okkar við önnur ríki þar sem málefni samkynhneigðra eru fótumtroðin. Það þarf svo sem ekki að nefna þau sérstaklega. Það mundi æra óstöðugan að telja þau upp en við eigum allmikil viðskipti við sum þeirra. Dropinn holar steininn í þessu efni og ég tel að við eigum að halda þessum málflutningi á lofti.

Ég fagna því að þessi tillaga er komin til síðari umr. og afgreiðslu.