144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst ágætt að hæstv. forseti sé að reyna að halda utan um það að fastanefndir geti fundað og að fundartími þeirra skarist ekki en það er hins vegar ekki nóg, af því að fundartímar skarast. Líkt og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á vitum við sem sitjum í nefndunum heldur ekki hvaða mál eru í forgangi og hvað á virkilega að reyna að klára á þessu þingi. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að hér verði komið á starfsáætlun sem við getum farið eftir og þess vegna finnst mér það mjög góð tillaga sem kom fram áðan um að boðað verði til formannafundar. Þá mæta bara þeir formenn stjórnmálaflokkanna sem þangað vilja koma og taka ákvörðun, gera samkomulag með sér um það hvaða mál eigi að ræða það sem eftir er.