149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að forseta hefur ekki tekist sérlega vel til ef hér standa bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn og skilja hvorki upp né niður í því hvað er í gangi. Staðreyndin er sú að þingflokksformenn hafa fundað nokkuð ört undanfarna daga þegar ekkert hefur verið að frétta. Síðasta fundi, í gær, lauk þannig að orkupakkinn yrði settur á dagskrá og ræddur út af því að það næðist ekkert að hnika málum. Síðan berast ekki fréttir, vegna þess að ekki var miðlað neinum fréttum um síðustu hræringar gærkvöldsins, heldur tóku einstaka þingmenn eftir því um miðnætti og aðrir ekki fyrr en í morgun að því hafði verið breytt.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvaða forsendur urðu til þess að hrært var í þessu og hvernig stendur á því að þær forsendur þola ekki dagsljósið?