149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[19:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar frá félags- og jafnréttismálaráðherra um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þetta er auðvitað hið besta mál og frábært framtak, svo langt sem það nær. En við höfum heyrt ýmsa gagnrýni á fjárhagslegu hliðarnar á málinu og hvernig eigi að fjármagna það. Ég mun koma inn á það síðar. En það sem ég mig langar eiginlega að velta mest upp og strax er að í tillögunni, breytingartillögum og í nefndarálitinu er eitt sem kemur aldrei fram, ég hef ekki enn fundið sérstakan kafla um það eða að það hafi verið nefnt nákvæmlega á nafn, og það er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra og fullgilding hans og að taka skuli tillit til hans í þessu máli í sambandi við þann þátt, sérstaklega þegar jafnframt mætti benda á að þegar hann verður lögfestur verður hann gífurleg réttarbót fyrir þennan hóp. Þetta er einn af þeim mjög svo viðkvæmu hópum sem þarf alveg sérstaklega að gæta að, eins og hefur sýnt sig.

Þess vegna vil ég vitna í og lesa hluta af umsögn Þroskahjálpar, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk er mjög berskjaldað fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Allar rannsóknir staðfesta það svo ekki verður um villst. Þetta á við um allt fatlað fólk en sérstaklega fatlaðar konur, fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Það er því mjög skýr og mikil skylda á ríkinu að gera það sem í þess valdi stendur til að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi með tiltækum ráðum og tryggja að lög og reglur, stefnumörkun, áætlanir, aðgerðir og öll framkvæmd taki mið af því og aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks. Einnig er stjórnvöldum skylt að tryggja að nægilegar rannsóknir séu gerðar til að lagasetning, stefnumótun og framkvæmd byggist á áreiðanlegum upplýsingum og gögnum.“

Þetta á að vera algjörlega sjálfsagt mál í þessu málefni.

Annað sem ég hnaut um var upptalning. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér aðeins upp:

„Við undirbúning aðgerðaáætlunarinnar hefur stýrihópurinn fengið á sinn fund marga sérfræðinga sem hafa kynnt hvar þeir telja aðgerða helst þörf sem og mögulegar útfærslur. Í þessu samhengi er rétt að nefna að stýrihópurinn hafði þegar aflað sér víðtækra upplýsinga á fundinum í Iðnó. Eftirtalin hafa komið til fundar við hópinn:“

Síðan er talinn upp hópur fólks, Landssamband eldri borgara og fleiri, en ég sé ekki upptalningu á Öryrkjabandalagi Íslands eða Þroskahjálp. Kannski voru þau ekki á þessum fundi, en ég vona það hafi frekar gleymst að nefna þau. En vonandi kemur það í ljós.

Við verðum að átta okkur á því að því miður virðast þeir sem mest þurfa á vernd okkar að halda, fatlaðir einstaklingar, lenda einhvern veginn milli þess að vera taldir með eða að nægilegt tillit sé tekið til þeirra. Ég held að það sé ekki út af neinu öðru en því að það séu bara hrein og klár mistök og hugsunarleysi.

Í þessu samhengi vil ég líka benda á það í umsögn Þroskahjálpar til nefndarinnar vegna málsins þar sem vitnað er í 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar kemur fram um aðgang að réttarvörslukerfinu, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

2. Í því skyni að stuðla að því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir það fólk sem starfar á sviði réttarvörslu, einnig fyrir lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.“

Þess vegna hef ég furðað mig á því að í upptalningu á þeim frjálsu félagasamtökum, sem eru talin upp í einum liðnum, er ekki getið um Öryrkjabandalag Íslands eða Þroskahjálp. Það er auðvitað algerlega óásættanlegt vegna þess að í þessum málum eiga allir að koma að.

Ég vil halda áfram að benda á samning Sameinuðu þjóðanna sem Þroskahjálp vitnar í, 4. gr. Eftir þann kafla segir í umsögn Þroskahjálpar, með leyfi forseta:

„Í kafla sem hefur yfirskriftina Skipan stýrihóps og samráð í greinargerð með þingsályktunartillögunni um aðgerðaáætlunina kemur fram hverjir sátu í stýrihóp undir forystu velferðarráðuneytisins við gerð áætlunarinnar og hverjir komu til fundar við hópinn. Landssamtökin Þroskahjálp sjá ekki að þar hafi verið leitað til fulltrúa fatlaðs fólks eða samtaka sem koma fram fyrir þess hönd, þrátt fyrir skýra samráðsskyldu samkvæmt 4. gr. samnings SÞ og þrátt fyrir þá staðreynd að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi og því mikil þörf og skylda stjórnvalda til að huga sérstaklega að því eins og glögglega kemur fram í þeim ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan.“

Ég held að það sé hreinlega sorglegt að þau hafi ekki komist þarna inn og kannski er það að mörgu leyti mér sjálfum að kenna að hafa ekki komist á fundi allsherjarnefndar þar sem ég er áheyrnarfulltrúi til að benda á þetta. Þetta sýnir að maður getur ekki verið alls staðar, því miður. Það er eiginlega sorglegt í svona málum og hefði ég helst óskað að ekki hefði hist svoleiðis á.

En síðan eru aðrir viðkvæmir hópar sem þarf að taka betur tillit til í þessari þingsályktunartillögu og nefndaráliti og það eru eldri borgarar. Landssamband eldri borgara sendi inn umsögn og það bendir mjög greinilega á þætti sem það telur að þurfi sérstaklega að vekja athygli á og ætla ég að fara orðrétt með það, með leyfi forseta:

„Sérstaklega ber að fagna því að rætt er um nauðsyn vitundarvakningar í þjóðfélaginu gegn haturstali. Þetta er nauðsynlegt sér í lagi hvað varðar alla samfélagsmiðlana.

Við þurfum svo sannarlega þjóðarátak hvað varðar einelti og ofbeldi.

Þessi mál hafa verið rædd hjá Landssambandi eldri borgara, þar sem það er staðreynd að ofbeldi og einelti á sér stað á eldri borgurum landsins. Það er því nauðsynlegt að taka sérstaklega fyrir hagsmunagæslu aldraðra þegar grunur er um að þar sé beitt ofbeldi.

LEB leggur áherslu á að allar rannsóknir á ofbeldi og einelti á eldri borgurum svo og tillögur til úrbóta séu gerðar í góðu samstarfi við forystu LEB.“

Þetta á að vera alveg sjálfsagt mál.

Því miður er líka annað sem mér finnst vanta í þessa þingsályktunartillögu og nefndarálitið og ekki er eitt orð um. Það er það sem ég kalla því ömurlega nafni fjárhagslegt ofbeldi. Það getur birst í ýmsum myndum og ein mynd fjárhagslegs ofbeldis er fátækt barna. Börn sem geta ekki sinnt íþróttaiðkun í skólum eða annars staðar geta ekki staðið jafnfætis jafnöldrum sínum og þau verða fyrir einelti, það er staðreynd. Þess vegna verður líka að tryggja það, og á að vera sjálfsagður hlutur, að ekkert barn þurfi að búa við fátækt, hvað þá sárafátækt.

Síðan er annað í þessu máli sem ég vil benda á í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands sem hún sendi inn í sambandi við málið. Mig langar að vitna í þá umsögn, með leyfi forseta:

„MRSÍ gerir athugasemdir við skort á samráði við frjáls félagasamtök og aðra aðila sem vinna gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Að vísu var haldinn vinnufundur í Iðnó þar sem grunnur var lagður að aðgerðaáætlun þessari en þess ber að gæta að þar vannst ekki tími til að fara á dýptina í stöðu einstakra hópa sem eru sérstaklega útsettir fyrir ofbeldi, t.d. kvenna af erlendum uppruna, fatlaðra kvenna (fatlaðs fólks), hinsegin fólks, t.d. transfólks og fólks með fíknivandamál eða geðræna sjúkdóma. Í áætluninni kemur fram að við undirbúning áætlunarinnar hafi sérstaklega verið leitað til margra sérfræðinga sem kynnt hafi hvar þeir telji aðgerða helst þörf og mögulegar útfærslur. Athygli vekur að af þeim samtökum og aðilum sem sérstaklega vinna gegn ofbeldi var einungis kallað eftir sérfræðingi frá Drekaslóð, sem er allra góðra gjalda vert, en ekki var leitað til Kvennaathvarfsins, Stígamóta, Kvennaráðgjafarinnar, Samtaka kvenna af erlendum uppruna og TABÚ svo einhver dæmi séu nefnd. Jafnframt mætti benda á MRSÍ en skrifstofan hefur áralanga reynslu í ráðgjöf við fórnarlömb mansals og konur af erlendum uppruna í ofbeldissamböndum. Í ljósi þessa saknar MRSÍ þess að ekki skuli í aðgerðaáætluninni að finna skýrari og nánar skilgreindar aðgerðir varðandi þá hópa sem nefndir eru hér að framan.“

Þetta eru hin besta ábending frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og einnig, með leyfi forseta, ætla ég að vitna annars staðar í umsögnina:

„Eins og að framan greinir, þá gerir MRSÍ athugasemdir við að í áætlunina vantar sértæk úrræði fyrir ýmsa hópa sem eru meira útsettir fyrir ofbeldi en aðrir. Vill skrifstofan sérstaklega nefna fíkla í því sambandi. Erlendar rannsóknir sýna að um 50% karlmanna í fíkni/vímuefnameðferð hafa beitt ofbeldi og þá er stór hluti kvenna í neyslu þolendur ofbeldis. Því ætti fíkni/vímuefnameðferð að taka jafnt á afleiðingum ofbeldis sem og að innihalda meðferð fyrir gerendur.“

Undir þetta getum við örugglega öll tekið. Við ættum að hafa það til athugunar líka.

En að þessu sögðu er annað í þessu, þ.e. fjármögnun. Fram kemur í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands að áætlað er að verja samtals 45 milljónum í aðgerðirnar. Í slíkar aðgerðir sem varða svo marga, sérstaklega eftir upptalningu á tölfræðinni frá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um hversu ótrúlegur fjöldi kvenna lendir í kynferðisofbeldi, erum við eiginlega að tala um smáaura í því samhengi þó að þetta sé ágætisupphæð, 45 milljónir. Hún er samt smáaurar í því samhengi hversu alvarlegt málið er.

Það sem mér finnst eiginlega alltaf alvarlegast í þessu er að í svona áætlun skuli ekki vera neitt um að styrkja þau félagasamtök sem nefnd eru í þessum tillögum og líka hin sem eru ekki nefnd, styrkja þau verulega til að taka á þessum málum vegna þess að við vitum að slík félagasamtök, sem mörg hver vinna frábært starf, sjálfboðaliðastarf, eiga undir högg að sækja vegna fjárskorts. Til að taka virkilega á þessum málum þarf að sjá til þess að fjármagn sé til staðar og sjá til þess að í tilfelli t.d. fatlaðra barna væri mjög nauðsynlegt að fjármagn væri til staðar, t.d. hjá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp, til að takast á við hlutina og aðstoða og hjálpa fólki til sjálfsbjargar og læknishjálpar og að hægt sé að koma málunum í rétta meðferð.

Eins og ég segi er þetta hið besta mál og ég myndi segja að þetta væri flott fyrsta skref í þá átt að taka á þessu gífurlega þjóðfélagsmeini sem ofbeldið er og sérstaklega gegn þeim sem minnst geta varið sig í þessu samhengi, sem eru fatlaðir einstaklingar, börn og eldri borgarar. Við vitum að þjóðin er að eldast. Hún eldist hratt og fjölgun eldri borgara á eftir að verða gígantísk í framtíðinni. Þar af leiðandi þarf að gæta sérstaklega að því vegna þess að ýmsir sjúkdómar herja á eldri borgara þessa lands sem gera þá mjög berskjaldaða fyrir ofbeldi. Þess vegna þurfum við sérstaklega að tryggja og sjá til þess að eldri borgarar verði ekki fyrir ofbeldi og við þurfum líka að sjá til þess og tryggja að ekki komi til greina og verði ekki möguleiki að eldri borgarar verði fyrir ofbeldi inni á stofnunum, sem eiga að vera þeim til þæginda síðustu daga ellinnar.

Þess vegna eigum við líka að passa það að til að ná þeim árangri verðum við að sjá til þess að fjármagn sé til og fjármagnið sé líka til frjálsra samtaka. Vegna þess að ég óttast, og ég sé það hjá þeim samtökum sem ég hef komið að, að það fjari undan svona samtökum: Fjármagn vantar, það vantar fólk til að berjast, fólk sem er búið að byggja upp hver samtökin á fætur öðrum, bara af hugsjón, og síðan er það eiginlega að gefast upp vegna þess að fjárhagslegi grunnurinn er að hrynja. Og það segir sig sjálft að ef mörg þessi samtök gefast upp vegna fjárhagserfiðleika og hætta lenda góðu málefnin og góðu málin, sem þau félög hafa verið að berjast fyrir og gera í sjálfboðavinnu, einhvers staðar. Þau munu sennilega þá lenda á ríkinu og valda (Forseti hringir.) töluverðum kostnaði þar.