150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef við byrjum á skosku leiðinni þá er gott að hafa þessar tölur á takteinum, að hún nái til um 70.000 íbúa Skotlands, enda eru Skotar mun fleiri en við. En ég velti því sjónarmiði upp í ræðu hvort það sé réttlætanlegt að skoska leiðin, eins og útfærsla hennar er á Íslandi, eigi við stærstu flugvellina á landsbyggðinni sem flokkast sem alþjóðaflugvellir, eins og Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Værum við þá ekki með fastara land undir fótum þegar kemur að ríkisstyrkjum? Sömuleiðis ef við vildum horfa til landsbyggðarsjónarmiðanna hrátt og styrkja frekar flug til allra fjarlægustu flugvallanna. Ég nefni sem dæmi Gjögur eða Patreksfjörð eða hvaða litlu flugvellir það væru.

Varðandi almenningssamgönguáætlun á höfuðborgarsvæðinu hef ég kallað eftir því ítrekað í ræðum og óskað eftir að vinna við heildræna almenningssamgönguáætlun landsins alls verði fullunnin og tilbúin. Nú verð ég að játa að ég man ekki alveg hvar sú vinna stödd, en það er líka ástæða til að spyrja sig hvort sú stóra áætlun almenningssamgangna fyrir landið allt vinnist kannski betur með því að gera séráætlun um almenningssamgöngur fyrir höfuðborgarsvæðið eins og samgöngusáttmálinn gæti í raun og veru verið, sem almenningssamgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er kannski skilvirkari leið vegna þess að það eru ansi ólík sjónarmið sem mæta okkur þegar við tölum (Forseti hringir.) um almenningssamgöngur á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.