Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

sjúkraflug.

1061. mál
[12:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við mikilvægt mál en bráðaþjónusta utan spítala er löng keðja þar sem hver hlekkur þarf að vera sterkur. Hlekkirnir eru margir og fjölbreyttir og það skiptir miklu máli að við búum þannig um að við höfum alla þessa hlekki sterka. Þá er sjúkraflugið gríðarlega mikilvægt. Sérhæfð sjúkraþyrla, eins og var komið inn á, er gríðarlega mikilvæg. Björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar skipta þarna miklu máli. Bráðaviðbragð á sjúkrabílum og bráðaliðar sem eru sérhæfðir skipta gríðarlega miklu máli í þessu. Þróunin verður þannig að við erum að færa þjónustuna miklu meira út á vettvang og svo þarf að vera hægt að fá greitt aðgengi að flugvellinum þannig að ég segi bara: Komum þessum björgum öllum á legg. Hættum að festast í umræðunni um hvort það sé Landhelgisgæslan eða einkaaðili eða heilbrigðisstofnanir sem reka þetta, komum bara þessum úrræðum á legg og hugsum um úrræðin en ekki rekstraraðila.