140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. (Utanrrh.: Hún var góð.) Hún var einkar góð. Ég hefði áhuga á að heyra aðeins betur frá þingmanninum um það sem hann fór yfir í lok ræðu sinnar um það sem virðist orðið markaður tekjustofn fyrir samgönguáætlun, (Gripið fram í.) veiðigjaldið. Það er einkar áhugavert að skoða síðustu blaðsíðurnar, fyrir utan heimildaskrána, í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 þar sem er farið í gegnum gjöld og tekjur vegna vegamála og bent á þá staðreynd að þeir tekjustofnar sem hingað til hafa tengst vegamálum, gjöld á bensín og olíu, notendagjöld í innanlandsflugi og annað, standa engan veginn undir nauðsynlegum, þótt ekki sé annað, viðbótum og því sem þarf að gera í vegakerfinu núna. Þær stórframkvæmdir sem hingað til hefur verið farið í samkvæmt jarðgangaáætlun sem var samþykkt á Alþingi árið 2000, þ.e. Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng, Héðinsfjarðargöng og Bolungarvíkurgöng, voru ekki fjármagnaðar með neinum mörkuðum tekjum til vegagerðar.

Ég velti fyrir mér af hverju ekki sé meiri umræða um málið og spyr hvort þingmaðurinn telji það ekki hafa verið nauðsynlegt að meiri hluti samgöngunefndar hefði farið nánar út í það hvernig hann sæi fyrir sér að fjármagna þau verkefni sem koma fram í breytingartillögum meiri hlutans. Nú hefur verið töluverður ágreiningur um veggjöldin sem ætlunin er að innheimta til að fjármagna Vaðlaheiðargöngin. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hver er afstaða meiri hluta nefndarinnar og þar með þingmannsins til þess að rukka inn veggjöld?