145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hv. þm. Vilhjálm Bjarnason afsökunar á því að hafa ekki nefnt hann í ræðu minni því að það er svo sannarlega rétt að hann hefur verið hér viðstaddur alla vega hluta úr umræðunni og tekið þátt í henni með andsvörum. Auðvitað hefði ég átt að nefna hann á sama tíma og ég nefndi hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Ég vil hér með biðja þingmanninn afsökunar á þeirri yfirsjón af minni hálfu og vona að hann virði afsökunarbeiðni mína.

Ég verð hins vegar að segja að ég upplifi umræðuna með öðrum hætti en hv. þingmaður. Hún hefur einmitt orðið mér til glöggvunar um hvaða þættir það eru sem við í hv. utanríkismálanefnd þurfum að taka mið af í umfjöllun okkar. Umræðan hefur í það minnsta orðið mér til gagns. Ég hlýt að fagna því. Ég og hv. þingmaður eigum eftir að halda umræðunni áfram og vonandi upplýsa hvort annað í störfum nefndarinnar en ekki draga úr þekkingu okkar þar.