145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Að sjálfsögðu er þetta hin sígilda umræða, og við höfum því miður verið að sjá sársaukafullar birtingarmyndir á því öryggisleysi sem byggðarlögin búa við í óheftu framsali veiðiheimilda þegar þeir sem hafa vald á kvótanum ákveða að fara þá fer allt með þeim, grundvöllur vinnslunnar og gjarnan eitthvað af íbúum um leið. Eftir stendur byggðarlag í sárum með fallandi tekjur og fólksfækkun og mikla erfiðleika.

Ég er ekki viss um að aðskilnaður veiða og vinnslu sé í sjálfu sér mikilvægt innlegg í lausn þess máls nema menn gangi alla leið í þeim skilningi að veiðar og vinnsla verði bókstaflega aðskilin þannig lagalega að mönnum sé skylt að bjóða veiðiheimildirnar yfir markað áður en þær fara inn til vinnslunnar. Þá að sjálfsögðu breytist þetta verulega mikið. Ég vil vera hreinskilinn; ég hef aldrei algerlega sannfærst um kosti þess að fara í slíkan fullan aðskilnað einfaldlega vegna þess að maður þekkir svo vel kostina við hitt líka þegar vel rekin og sómasamleg fyrirtæki, ekkert endilega bara þau stóru heldur ýmsar fjölskylduútgerðir með litla vinnslu á bak við, spila vel úr sínum heimildum og tvinna þetta vel saman og stýra veiðunum inn í vinnsluna o.s.frv. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það líka úr sínu kjördæmi.

Það má líka velta fyrir sér spurningunum um að binda sjálfar veiðiheimildirnar einhvern veginn með lögum í meira mæli við byggðarlögin í þeim skilningi að hyggist útgerðarmaður flytja eða selja þá séu ekki bara einhver ónýt forkaupsréttarákvæði sveitarfélagsins heldur hugsanlega og mögulega einhver takmörk á því hvað geti farið í burtu og jafnvel skyldur á herðum (Forseti hringir.) ríkisins til einhvers konar innlausnar á hluta veiðiheimildanna. Í raun og veru eru mörg úrræði (Forseti hringir.) möguleg í þessu ef pólitískur vilji er til staðar.