150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

ályktun Félags prófessora.

[10:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gefur prófessorum falleinkunn. Mér þykir vissulega leitt að heyra hvað hæstv. ráðherra ber litla virðingu fyrir fræðasamfélaginu. (BjarnB: Er það fræðileg niðurstaða?) Hæstv. ráðherra hefur lýst þeirri skoðun að kunningsskapur Lars Calmfors við Þorvald Gylfason sé líklega að baki því að hann hafi tilnefnt Þorvald í starfið. Calmfors brást við þessum ummælum hæstv. ráðherra í viðtali við Kvennablaðið þar sem hann sagðist aldrei á 50 ára starfsferli sínum hafa verið sakaður um kunningjaspillingu. Calmfors ítrekaði að hann hefði mælt með Þorvaldi í starfi vegna hæfis, hann væri fjölhæfur hagfræðingur með hagnýta reynslu og alþjóðlega viðurkenndur sem slíkur. Þá sagði Calmfors, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli finnst mér ummæli ráðherrans, eins og þau eru í þeirri þýðingu sem mér var send, stórfurðuleg. Það hendir alla að segja eitthvað í hugsunarleysi undir álagi. Engu að síður þætti mér við hæfi að fá afsökunarbeiðni frá ráðherranum þegar hann er búinn að hugsa málið.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann búinn að hugsa málið og hyggst hann biðja Lars Calmfors afsökunar? En Þorvald Gylfason?