135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið athyglisverð um margt og ég er ekki einn um þá skoðun, henni deilir m.a. hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde. Hann hefur hvað eftir annað kvatt sér hljóðs og þakkað fyrir málefnalegt og gott og uppbyggilegt innlegg til umræðunnar.

Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin skuli þá hafa þessi vinnubrögð? Hvernig stendur á því að ekki var fyrst efnt til þeirrar umræðu sem hér fer fram og í kjölfarið teknar ákvarðanir í ljósi umræðunnar og þeirra ábendinga sem fram kæmu? Hvers vegna voru ekki höfð þau vinnubrögð sem Alþingi hafði fyrr á tíð þegar ráðist var í umfangsmiklar og róttækar breytingar á Stjórnarráði Íslands?

Hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vék að þessu í ræðu sinni og fór með okkur aftur til ársins 1958. Þá hafði Bjarni Benediktsson, þáverandi hv. þingmaður, forustu um að efna til umræðu af því tagi sem hér fer fram. Og hvað vildi hann? Hann vildi að Alþingi kysi með hlutfallskosningu fimm menn til að endurskoða löggjöf um Stjórnarráð Íslands og gera tillögur um skipan ráðuneyta og skiptingu starfa á milli þeirra.

Var Bjarni Benediktsson þá í ríkisstjórn? Nei. Hver urðu afdrif tillögu Bjarna Benediktssonar stjórnarandstöðuþingmanns? Tillagan var að efni til samþykkt. Ég er hér með ræður sem fluttar voru þegar það gerðist í lok maímánaðar árið 1958. Hér eru athyglisverð ummæli, m.a. frá Magnúsi Jónssyni, sem sagði á þá leið að það væri tvímælalaust nauðsyn að festa ríkti í yfirstjórn landsins og hvað varðar skipulag á stjórnardeildum og ráðuneytum og starfsskiptingu á milli þeirra og mælti í því ljósi fyrir því að það færi fram vönduð og málefnaleg umræða og í kjölfarið yrði ráðist í breytingar, sem og var gert á næstu missirum og árum vegna þess að á grunni þeirrar vinnu sem þarna hófst og samstaða náðist um í þinginu var ráðist í umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráði Íslands.

Hvaða hátt hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á? Jú, hún ræðst í það að blanda mjög undarlegan kokteil sem er í senn í tengslum við verkaskiptingu og hrossakaup í ríkisstjórninni og hins vegar pólitísk stefnumörkun til langs tíma sem stjórnarflokkarnir gátu orðið sammála um. Það tók ekki langan tíma að komast að niðurstöðu.

Við minnumst þess þegar oddvitar stjórnarflokkanna, formaður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, héldu til Þingvalla í kjölfar kosninganna síðastliðið vor í viðleitni til að festa sæmdarheiti á ríkisstjórnina, vildu láta kenna hana við Þingvelli, sem varð nú ekki reyndin, hún hefur ekki fengið þá nafngift. Niðurstaðan var hins vegar kynnt í Alþingishúsinu fyrir fréttamönnum eftir að þau tóku ganginn, sem kallað er, í vel æfðu göngulagi hér eftir glergöngunum, hæstv. forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og þá var kynnt hvað í vændum væri og fyrir þingið var lagt frumvarp um breytingar á Stjórnarráði Íslands.

Hunsuð voru öll tilmæli sem fram komu, m.a. frá verkalýðshreyfingunni um að tekið yrði tillit til sjónarmiða úr þeim ranni, samningsbundinna og lagalegra ákvæða sem vörðuðu t.d. auglýsingaskyldu starfa. Allt hunsað. Þrátt fyrir óskir um breytingar þar að lútandi var ekki orðið við því. Því er um þessi vinnubrögð að segja að þau eru að sjálfsögðu með öllu forkastanleg. Þau eru óvönduð og þau eru í rauninni þinginu ekki bjóðandi.

Hvað er að gerast núna? Í vor var ákveðið að steypa saman ráðuneytum eða sundra eftir því hvað hentaði. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu var sundrað en eins og segir í greinargerð með þessu frumvarpi þá skipti það ekki öllu máli vegna þess að þau voru afmarkaðar einingar innan sama ráðuneytis. Í öðrum tilvikum var ráðuneytum slegið saman, sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð.

Það sem er að gerast núna með þessum makalausa bandormi er að byrjað er að skáka stofnunum, ríkisstofnunum til og frá, stofnanir sem settar voru á laggirnar, sumar hverjar fyrir örfáum mánuðum, skulu lagðar niður og án þess í reynd að umræða fari fram um málið, gefinn er afar lítill frestur til djúprar, málefnalegrar umræðu um þessi mál.

Sitt sýnist síðan hverjum hvert beri að stefna í þessum efnum, hvar einstakir málaflokkar eiga heima o.s.frv. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég undrast það hve lítið hefur verið hlustað á t.d. landbúnaðarsamtök og óskir innan úr þeim geira þegar kemur að því að ráðstafa menntastofnunum sem heyra undir landbúnaðarmál undir annað ráðuneyti. Það er sama hvaða niðurstöðu menn telja vera æskilega í þeim efnum, það er fráleitt annað en að þau mál hljóti miklu betri umræðu og að aðdragandinn sé allt annar en sá sem hér er verið að bjóða upp á.

Mér finnst ýmislegt mæla með uppstokkun á atvinnumálaráðuneytunum og jafnvel þeirri hugsun að til eigi að vera eitthvað sem heitir atvinnumálaráðuneyti en ég get ekki varist þeirri hugsun að með því skrefi sem menn eru að stíga nú með því að leggja niður landbúnaðarráðuneytið og leggja niður sjávarútvegsráðuneytið og sameina þessi ráðuneyti í eitt séu menn ekki að gera þessum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar neinn greiða, ég held ekki. Ég held að það hafi verið ákveðin vörn í því fyrir landbúnaðinn að um hann sýslaði ráðuneyti. Ég held að hið sama gildi í reynd um sjávarútvegsráðuneytið.

Um þetta hafa menn mörg orð hér og ég hef hlustað með athygli á það sem fram hefur komið. Gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að þessum forkastanlegu vinnubrögðum. Þetta er blanda af pólitískum hrossakaupum og síðan handstýringu á pólitískri stefnu sem hefði átt að fá allt annan og meiri aðdraganda.

Síðan er hitt um kostnaðinn. Það segir að þær breytingar sem hér sé verið að ráðast í snerti 200 viðfangsefni á fjárlögum. Það kemur fram í umsögn sem fylgir með frá fjármálaráðuneytinu að þetta eigi ekki að kosta neitt, að þetta eigi ekki að kosta nokkurn skapaðan hlut. Ég fæ ekki annað skilið á því sem hér kemur fram í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég á erfitt með að kaupa þá skýringu.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs í þessari umræðu til þess að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Þau eru mjög óvönduð og ekki sæmandi fyrir ríkisstjórn eða Alþingi að standa svona að málum þegar um er að ræða grundvallarbreytingar sem gera á á stjórnsýslu landsins.