136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[15:32]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar og hef áður á Alþingi minnst á vinnubrögð stjórnarflokkanna um álitið sem kom í janúar frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málum. Ég vil minna á að í tillögunni er vitnað í 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Sú grein er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta þingsins:

„Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.“

Þessa grein brjótum við hiklaust á tveimur sjómönnum frá Tálknafirði og ekki er að sjá eða skynja að stjórnvöld ætli að gera eitthvað í því og er það sorglegt. Við þessa umræðu um þingsályktunartillöguna er enginn úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í salnum né heldur hæstv. sjávarútvegsráðherra. Sorglegt er að þeir sjái ekki sóma sinn í því að ræða mál sem skipta verulegu máli.

Trillukarl úr Sandgerði hóf að róa 18. júní án veiðiheimilda og hann reri síðasta róðurinn 7. ágúst. Þá var bátur hans innsiglaður og er það enn. Trillukarlinum hefur ekki verið birt ákæra vegna brotsins sem hann átti að hafa framið, þ.e. veiða án kvóta. Maður spyr sjálfan sig auðvitað að því, af hverju er manninum ekki birt ákæra í málinu? Þora yfirvöld í landinu ekki að birta manninum ákæru vegna þess að þau vita að hann mun veifa áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og benda á að mannréttindi séu brotin á honum? Sjómönnum er mismunað með lögum sem ekki standast álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Merkilegt er og verður í framtíðinni fyrir sagnfræðinga að skoða að við skulum hafa haft fiskveiðistjórnarkerfi í aldarfjórðung. Reyndar voru töluverðar breytingar gerðar 1. janúar 1991 þegar frjálsa framsalið tók gildi en það leyfði leigu og sölu veiðiheimilda. Þá fengust peningar fyrir sölu á veiðiheimildum og hægt var að veðsetja þær. Við sjáum nú að slíkar veðsetningar duga ekki fyrir skuldum sjávarútvegsins. Þannig að af mörgu er að taka.

Ótrúlegt er að frá 1991 hafi verið leiguliðar og lénsherrar í íslenskum sjávarútvegi. Sjómenn sem hafa viljað fara á sjó hafa þurft að leigja veiðiheimildir dýrum dómum af sægreifunum sem fengu kvótanum úthlutað ókeypis í upphafi. Ætla stjórnvöld og núverandi stjórnarflokkar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar virkilega að halda því áfram að leyfa fáum útvöldum að eiga fiskinn í sjónum? Mér dettur í hug að þegar búið er að stranda skútunni, eins og nú er, þá ætli fólkið á fyrsta farrými að fara með léttabátnum í land með allt gullið úr lestinni en hetjur hafsins, hermenn þjóðarinnar og þrælarnir verða enn hlekkjaðir við árarnar á neðra þilfari. Það finnst mér blasa við núna.

Framsóknarmenn eru ekki saklausir af kvótakerfinu. Þeir hafa staðið vörð um það ásamt sjálfstæðismönnum frá 1984 og virðist lítill viðsnúningur vera hjá þeim og lítið rofa til í kolli framsóknarmanna þessa dagana. Þeir mega þó eiga það að í vor eða vetur þegar álit mannréttindanefndarinnar kom fram töldu þeir að það þyrfti að virða mannréttindi á Íslandi. Auðvitað fagnar maður því.

Maður botnar ekkert í vinstri grænum nú frekar en áður þegar kemur að sjávarútvegsmálum. Í fyrrahaust samþykktu þeir og lögðu til að veiðileyfagjald af fiski yrði fellt niður þegar við í Frjálslynda flokknum lögðum til að það yrði notað til að hjálpa sjómönnum sem urðu fyrir skakkaföllum vegna kvótaskerðingar og bæta hag fiskvinnslufólks. Síðast í gær varði hv. þm. Björn Valur Gíslason nánast kvótakerfið, galla þess og ókosti og kannaðist ekki við neina vankanta á kerfinu, hvorki brottkast né framhjálandanir né annað slíkt. Það er ágætt ef einhverjir sem hafa unnið í þessu kerfi kannast ekki við þetta og þekkja ekkert til þessara mála. Oft eru til sérstakar undanþágur eða undantekningar eins og sannast í málflutningi hans.

Sjávarútvegsráðherra hefur nú lýst því yfir að hann vilji halda áfram óbreyttu kerfi en ég hef ekki trú á því að honum verði stætt á því. Allir sjá að ef á að fara svona með landsmenn eins og allt útlit er á stefna margir í gjaldþrot og mikla erfiðleika og atvinnufyrirtæki önnur en í sjávarútvegi þurfa að standa sína plikt og vera ábyrg gerða sinna. Þegar kemur að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum skulda þau meira en 500 milljarða fyrir utan óbeinar skuldir en gætu árlega haft, ef vel tækist til, 20–30 milljarða til að borga vexti og afborganir. Ekkert þarf að koma manni á óvart í umræðu um þessi mál. Ég hef horft upp á andvaraleysi manna og þegar ég sé hæstv. sjávarútvegsráðherra vera eins og strengjabrúðu í höndum sægreifanna, kemur mér ekki á óvart að hann haldi áfram að vera málpípa þeirra þótt þeir séu komnir í þrot með allan atvinnurekstur sinn út af græðgi í kvótakaupum og öðru slíku. Auðvitað einnig vegna utanaðkomandi aðstæðna eins og falls krónunnar og annars í þeim dúr, sem þarf nú ekkert að rekja hér þessa dagana.

Eigendur sjávarjarða á Íslandi eru með mál sín fyrir hinum alþjóðlega mannréttindadómstól og leita þar eftir því að réttur þeirra verði virtur. Þ.e. að þeir eigi rétt á því að fiska 60 faðma frá stórstraumsfjöru. Hringinn í kringum landið hafa þeir hafa verið hunsaðir og ekki virtir viðlits. Þeir hafa ekki haft leyfi til að nýta fjöruna heima hjá sér til að draga björg í bú.

Manni finnst sorglegt að svokallaðir jafnaðarmenn á Íslandi, þ.e. Samfylkingin, skuli láta þetta allt yfir sig ganga og ekki einu sinni reyna að spyrna við fótum.