150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

nýsköpunarstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég er að sjálfsögðu bæði mjög ánægð og stolt af þeirri stefnu sem nú hefur litið dagsins ljós eftir mikla vinnu, m.a. með aðkomu fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á þingi, öðrum hagsmunaaðilum og frumkvöðlum. Sú vinna hefur skilað miklu og við byrjum á því að segja frá þessu stefnuplaggi þar sem öll sú grunnhugsun sem öllu máli skiptir birtist og við vildum gefa henni það pláss sem hún átti skilið og þá umræðu sem hún hefur fengið sem ég fagna sömuleiðis. Það er mikil alvara að baki stefnunni og ég hlakka mjög til komandi vikna og mánaða í þeirri vinnu sem fram undan er, m.a. til að vinna þær aðgerðir og koma þeim á framfæri sem falla undir stefnuna.

Við erum þegar búin að forgangsraða 13 aðgerðum sem við erum núna að vinna að og ég geri ráð fyrir að kynna bæði í lok október og aftur í lok nóvember þar sem m.a. birtist í fjármálaáætlun sú stefna að ríkið leggi fjármuni til næstu fimm ára í nýsköpunar- og vaxtarsjóði. Þetta er vinna sem skiptir miklu máli að vanda mjög. Við höfum litið til þeirra landa sem hafa gert þetta vel, að koma á fót slíkum sjóði, þannig að ég tek alveg undir með hv. þingmanni að það skiptir máli að auka aðgengi sprotafyrirtækja að áhættufjármagni á fyrstu stigum. Það er í rauninni aðgerð númer eitt sem við munum kynna betur og erum að vinna að og þarfnast mikillar vinnu fram undan til að koma á fót.

Tækniþróunarsjóður hefur stóraukist undanfarin ár og er allt annar sjóður en hann var fyrir einhverjum árum en það er alveg rétt að það er aðhaldskrafa á hann eins og alla aðra. Við erum líka að setja, mismunandi (Forseti hringir.) eftir því hvernig það er skilgreint, 10–13 milljarða í nýsköpun heilt yfir og hluti af vinnunni fram undan í samræmi við stefnuna er að greina nákvæmlega í hvað peningarnir fara og hvort þeir eru allir á réttum stað.