154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[17:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra eða innviðaráðherra, það hefst einn daginn að festa nýju orðin í minni, andsvarið.. Enn stend ég á gati varðandi það hvernig 2+2 vegur í stokk á að hafa miklu meiri umferðarrýmd og afkastagetu heldur en 2+2 vegur á yfirborði. Það sem ég held að sé staðan er að það er verið nýta Sæbrautarstokkinn eða þær hugmyndir sem þar eru uppi til þess að tefja áform og undirbúning Sundabrautar. Það er grafalvarlegt ef menn geta ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að þarna verði einhver grundvallarbreyting á hvað varðar téðan Sæbrautarstokk. Sundabrautin hefur verið þannig þrautaganga áratugum saman að við verðum að gera allt sem við getum til að koma því verkefni áfram. Það að leggja stein í götu þess verkefnis með því að nátengja það mögulegum Sæbrautarstokki — sem voru mislæg gatnamót á þeim tíma, það er verðmiðinn sem fer inn í samgöngusáttmálann þannig að það er ekki lengra síðan en það, 2019, að áform voru uppi um mislæg gatnamót á þessum stað og þá er Sundabrautin búin að vera í umræðu í áratugi. Hvað breyttist svona stórkostlega og hvað breytist með því að hafa akreinarnar tvær í hvora átt yfirbyggðar í staðinn fyrir að þær séu undir berum himni? Það er mér algjörlega óskiljanlegt, kannski er það skilningsleysi mitt, ég veit það ekki en a.m.k. fengust ekki svör við því hjá hæstv. ráðherra. En það verður áhugavert að reyna að ná því fram hjá umferðarsérfræðingunum sem vísað er til fyrir umhverfis- og samgöngunefnd.