133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:45]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé öllum ljóst og hafi verið margítrekað, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem hefur boðað það allt frá síðasta þingi, að hér yrði haft uppi málþóf um frumvarp um Ríkisútvarpið. Ég held að það þurfi ekki að koma nokkrum manni á óvart, hvað sem menn vilja svo að öðru leyti segja um fundarstjórn forseta og röð mála hér.

Rétt er að rifja það upp varðandi röð þeirra þriggja mála sem hér eru á dagskrá, um Ríkisútvarpið, Sinfónínuhljómsveitina og fjölmiðlafrumvarpið, að það kom fram á fundi þingflokksformanna og var afgreitt þar að stjórnarandstaðan mundi ekki fallast á að ræða frumvarpið um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið saman. Forseti var ekkert að fara fram á það hér að þau yrðu rædd saman, hann lagði hins vegar til að Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin yrðu rædd saman sem er fullkomlega eðlilegt, algerlega sambærileg mál, og þurfa í raun að ræðast saman. Stjórnarandstaðan hefur nú mótmælt því svo að þau mál, sem hefði verið eðlilegt að ræða saman, verða ekki rædd saman að þessu sinni. Því er alveg ljóst að hér eru menn að hefja umræðu sem þeir ætla að hafa í málþófi og alls ekki ræða á efnislegum forsendum. Það er það sem stjórnarandstaðan boðar.

Ég ítreka, hæstv. forseti, að það er kominn tími til að menn komist að til að ræða efnislega þessa miklu lagabálka, þau frumvörp sem hér liggja fyrir, til að að sjónarmið manna megi komast á framfæri.