148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti vegna fjáraukalaga fyrir árið 2017. Líkt og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta sem dreift hefur verið eru einungis gerðar óverulegar breytingar á milli umræðna og mun ég þá kynna það í nefndarálitinu.

Það má um fjárlögin árið 2017 segja að mér er til efs að nokkurn tímann komi aftur sú staða í íslenskum stjórnmálum sem hér hefur verið undanfarið. Það má ramma hana inn með því að segja: Hér störfuðu tveir ríkisstjórnarmeirihlutar við að framkvæma fjárlög fyrir árið 2017 sem enginn skýr meiri hluti á Alþingi samdi og setti. Ég held að það verði að horfa til þess með mikilli sanngirni og sjá hvernig gengið hefur að framkvæma þau fjárlög í því sérstaka ástandi sem verið hefur hér á undanförnu ári. Samt vil ég segja að heildarniðurstaðan er sú að hér er verið að loka fjárlögum ársins 2017 með þessum fjáraukalögum með mjög viðunandi afgangi, 1,7% afgangi af vergri landsframleiðslu, sem er langt umfram það sem fjárlagafrumvarpið, sem samþykkt var hér fyrir ári síðan, gerði ráð fyrir. Samkvæmt þágildandi fjármálastefnu var um að ræða markmið um 1% afgang, en niðurstaðan er 1,7%.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, sem er pólitískur grundvöllur frumvarpsins, er rakið það sem ég hef hér sagt um þessar sérstöku aðstæður. Að öðru leyti vil ég um það verklag segja og þær tímasetningar sem móta lögin, sem við köllum oft hin nýju lög um opinber fjármál — ég held að við þurfum nú að fara að venja okkur af því að tala um lögin sem ný, þau eru sett árið 2015 með gildistöku í upphafi árs 2016 — að þar er ekki gert ráð fyrir slíku ástandi sem hefur verið í stjórnmálum sem ég hef hér áður lýst. Sú löggjöf gerir í raun og veru ekki ráð fyrir því að slíkur óstöðugleiki sé í stjórnmálum, og er það í sjálfu sér verkefni þingsins að taka á því og ræða hvernig hægt sé að bregðast við.

Auðvitað er langtum besti bragurinn á því að ríkisstjórn sem tekur við leggi fram, samhliða fjárlagafrumvarpi sínu, breytingartillögu við gildandi þingsályktun um fjármálastefnu, eins og hún á að gera samkvæmt lögum, sem er í raun og veru grunnur að nýrri ríkisstjórn — fjármálastefnan er hennar fyrsta þingmál meðfram fjárlagafrumvarpi — og einnig fjármálaáætlun til fimm ára til breytingar á gildandi fjármálaáætlun. En auðvitað vannst ekki tími til þess hjá ríkisstjórn sem tók við 30. nóvember að undirbúa slíkt mál. Því verður að skoða framgang og framkvæmd þeirra fjárlaga sem við nú breytum með fjáraukalagafrumvarpi í því ljósi.

Nefndin fjallaði um nokkra þætti og fékk á sinn fund gesti er getið er um í nefndarálitinu. Þar er t.d. rætt um lög um opinber fjármál, sem ég hef áður nefnt, og fjáraukalög og um samspil þeirra og notkun varasjóða.

Í meirihlutaáliti hv. fjárlaganefndar fyrir fjárlögin fyrir 2018 er fjallað með nokkrum orðum um notkun varasjóða. Hv. fjárlaganefnd rannsakaði nokkuð í umfjöllun sinni um fjáraukalagafrumvarpið notkun varasjóða sem eru raunverulega nýmæli og voru í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 2017 vegna þeirra laga sem nú gilda um opinber fjármál. Við yfirferð nefndarinnar kom í ljós að í sjálfu sér er lítið farið að nota þá varasjóði sem þar voru lagðir til hliðar, 7,85 milljarðar í almennan varasjóð og síðan tæpar 900 millj. kr. í varasjóði málaflokka.

Við í meiri hluta fjárlaganefndar bendum aftur á það í nefndaráliti með fjáraukalögum að verklag við nýtingu varasjóða þurfi að skerpa og skýra betur, rétt eins og við gerðum í nefndaráliti um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018. Það er afstaða fjárlaganefndar að mun betur þurfi að greina samspil varasjóða og fjáraukalagafrumvarps og að slíkt sé nauðsynlegt framvegis. Það er afstaða meiri hlutans að framvegis þurfi að láta reyna á notkun varasjóða áður en til setningar fjáraukalaga kemur.

Auðvitað eigum við enn þá langt í land að innleiða þessi nýju lög og er svo sem um eðlilega barnasjúkdóma á þeim að ræða. En að öllu þessu lýstu vil ég enn ítreka að öll þessi vinna, og að ekki sé búið að opna varasjóðina og láta reyna á þá áður en til fjáraukalaga kemur, að við séum að breyta hér gildandi fjárlögum eftir að tvær ríkisstjórnir hafa setið, getur aldrei orðið fordæmisgefandi um framkvæmd og flutning fjáraukalaga sem við ræðum í dag.

Rétt eins og hæstv. fjármálaráðherra rakti í framsögu sinni með fjáraukalagafrumvarpi hafa orðið talsverðar breytingar á tekjum ríkissjóðs. Við fjöllum nokkuð um það í nefndaráliti okkar um endurmat og afkomu ársins. Ég hafði áður nefnt að hér eykst afgangur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Má rekja það fyrst og fremst til tekna ríkissjóðs, hærri skatttekna sem verið hafa endurmetnar, og arðgreiðslur úr bönkum og eignum ríkisins.

Um útgjöldin er það að segja að stærsta og veigamesta útgjaldabreytingin frá gildandi fjárlögum er vegna aukins vaxtakostnaðar ríkissjóðs, eða 8,1 milljarður kr., og er að mestu tilkominn vegna uppkaupa ríkissjóðs á lánum í skuldabréfaflokki RIKH 18 en sú aðgerð var nauðsynleg til að takmarka endurfjármögnunaráhættu ríkissjóðs. Til lengri tíma borgar aðgerðin sig upp með lækkun vaxtagjalda. Nú í desember var einnig ákveðið að minnka útistandandi fjárhæð skuldabréfaflokks RIKB 19, með skiptiútboði.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um að afhenda Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, eignir úr Lindarhvoli ehf. Nefndin fjallaði sérstaklega um þá ráðstöfun. Við afgreiðslu og framkvæmd þingmáls um stöðugleikaframlög lagði Alþingi áherslu á að sólarlagsákvæði gilti um félagið sem tók að sér umsýslu með eignum sem greiddar voru sem stöðugleikaframlög. Það er álit meiri hluta nefndarinnar að sú tilfærsla sé í samræmi við upphafleg markmið og að hagsmunum LSR sé ekki ógnað. Umræddar eignir falla vel að eignasafni LSR, bæði hlutafé og útistandandi lán. LSR hefur yfirfarið eignirnar og lagt mat á þær með tilliti til heildareignasafns sjóðsins og hvort þær rúmist innan fjárfestingarstefnu hans. Að mati stjórnar Lindarhvols er hvorki heppilegt né þjónar það hagsmunum ríkisins að selja þær eignir eins og er. Það þýðir þó ekki að þær séu ósöluvænar með öllu. Hluti eignanna eru útistandandi lán þar sem í flestum tilfellum er stutt í lokagjalddaga og því er talið betra að bíða með sölu þeirra með það að markmiði að hámarka virðið. Aðrar eignir, eins og hlutafjáreignir, falla vel að umsýslu sjóðsins. LSR er ekki háður neinum tímamörkum í eignaumsýslu sinni, ólíkt Lindarhvoli sem hefur takmarkaðan tíma, eins og áður er nefnt. Það er álit meiri hlutans að tilfærslan sé í samræmi við upphafleg markmið og að hagsmunum LSR sé ekki ógnað. Minnt er á að áfram verður ríkisábyrgð á eftirlaunaskuldbindingum B-hluta sjóðsins.

Að öðru leyti má að langstærstum hluta rekja tillögur í frumvarpinu til breytinga á útgjaldaforsendum sem óhjákvæmilegt var að bregðast við á árinu. Aukin framlög vegna almannatrygginga eru t.d. fyrst og fremst vegna fjölgunar öryrkja.

Einnig er óskað eftir auknum heimildum vegna réttinda einstaklinga. Fjárlaganefndin sem starfaði á fyrri hluta ársins 2017 og sinnti eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga sendi dómsmálaráðherra bréf vegna þess hvernig horfur voru á þróun útgjalda vegna málefna innflytjenda og flóttamanna. Viðbrögð ráðuneytisins við því bréfi fjárlaganefndar voru skörp og skýr og varð að grípa markvissra aðgerða. Þannig tókst að stemma stigu við viðbótarútgjöldum og voru viðbrögð ráðuneytisins að endurskoða verklag og framkvæmd málaflokksins ásamt endurskoðun reglugerða. Við setningu fjárlaga fyrir árið 2017 var ljóst að sá kostnaður sem fylgdi framkvæmdinni var vanmetinn. Það er meginástæðan fyrir þeirri niðurstöðu ársins í fjáraukalagafrumvarpinu og hefur ráðuneytið nú brugðist við. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 er reiknað með auknum framlögum sem staðfesta það vanmat.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um 550 millj. kr. greiðslu til þjóðkirkjunnar, til að standa við samkomulag um kirkjujarðir. Meiri hlutinn vill ítreka ábendingu sem gerð var í nefndaráliti um fjármálaáætlun síðastliðið vor þar sem fram kom að meiri hlutinn vildi að forgangsmál yrði að samskiptum ríkis og kirkju yrði komið í betra horf. Núverandi óvissa tryggir ekki sjálfstæði kirkjunnar og trúfélaga sem æskilegt er. Kirkjujarðasamkomulagið er aðeins einn þáttur í samskiptum ríkis og kirkju, annar þáttur er framkvæmd á uppgjöri sóknargjalda.

Útgjöld vegna lyfja og hjálpartækja hafa á undanförnum árum verið of oft umfram heimildir við framkvæmd fjárlaga. Nú má segja að óvenjumikið frávik sé frá gildandi fjárlögum og því er lögð til veruleg hækkun heimildar í fjáraukalögum. Það er álit meiri hlutans að mun meiri festa þurfi að vera um framkvæmdina og er ætlunin að fylgja þeim málum mun ákveðnar eftir á nýju ári. Áfram verður þó alltaf einhver óvissa um útgjöld af þessu tagi.

Á árinu hafa vandamál vegna verðfalls á útflutningsmörkuðum búvöru verið sérstaklega þung í skauti fyrir sauðfjárræktina og bændur sem hana stunda. Verðfall í kjölfarið á viðskiptastríði Evrópusambandsins og Rússlands hefur orsakað verulegan tekjusamdrátt en viðskiptastríðið er afleiðing af pólitískum ákvörðunum sem skapa ákveðinn forsendubrest. Sauðfjárræktin er mikilvæg stoð við byggð í dreifbýli og veik staða hennar hefur afgerandi áhrif á þróun byggða, vöxt þeirra og getu til að standa undir samfélagslegri grunnstarfsemi sem þar við búa. Sauðfjárbúskapur er sérstaklega viðkvæmur í ákveðnum byggðum landsins og í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá árinu 2016 er áhersla lögð á sérstakt gildi greinarinnar fyrir ákveðin byggðarlög. Samkvæmt sérstakri greiningu Byggðastofnunar hafa ákveðin svæði verið greind sem viðbót við almenn starfsskilyrði sem samningurinn undirbyggir. Sértækar aðgerðir vegna ákveðinna svæða eiga rót í áherslum Alþingis við afgreiðslu búvörusamninga frá árinu 1995.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lögð áhersla á að bregðast við vandanum og afleiðingum hans. Hér er lögð til fjárheimild til að bregðast við afkomuhruni og vinna að endurreisn afkomu greinarinnar. Meiri hlutinn telur að ráðstöfun í fjáraukalögum undirstriki alvarleika þeirrar stöðu sem byggðir standa frammi fyrir og að ákvörðun um aðgerðir megi ekki dragast lengur. Heimildin geti unnið gegn gjaldþrotum og byggðaröskun. Aðrar aðgerðir en þær sem snúa beint að bændum eru ætlaðar til að bæta til lengri tíma umgjörð um atvinnugreinina og þannig styrk þeirra byggða sem á henni byggja.

Að frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undangenginni umræðu og umsögnum um tillöguna er fram kom hefur meiri hluti fjárlaganefndar lagt til ákveðna breytingu á skiptingu þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til aðgerðarinnar.

Í fjáraukalagafrumvarpi og þeim breytingum er meiri hlutinn flytur er einnig hér umfangsmikill kafli sem má segja að sé líka afleiðing af breyttum lögum um opinber fjármál er varða eignafærslu rekstrarfjármuna hjá ríkisaðilum sem ég sé ekki ástæðu til þess að rekja frekar en það er ljóst að ýmislegt af því verklagi, eins og ég hef áður rakið, vegna framkvæmdar hinna opinberu fjármála og þeirra breytinga sem nú standa yfir á eftir að skerpa og koma í betra horf m.a. hvernig við eignfærum rekstrarfjármuni sem nú er ætlast til að fyrirtæki og stofnanir á vegum ríkisins geri.

Að lokum ætla ég að nefna eina breytingartillögu til viðbótar. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 17 millj. kr. framlag til Íslensku kosningarannsóknarinnar. Sökum þess hversu brátt alþingiskosningar 28. október bar að voru fjármagn og gagnaöflunar fyrir þær kosningar ekki tryggð. Rannsóknin felur í sér viðhorfskönnun meðal kjósenda sem hefur verið framkvæmd eftir hverjar kosningar frá árinu 1983 fram til ársins 2016, meðal frambjóðenda frá 2009 og meðan á kosningabaráttunni stendur frá árinu 2016.

Einnig eru að lokum lagðar til allverulegar millifærslur vegna endurmats á útgjöldum er taka fyrst og fremst mið af gengi krónunnar á hverjum tíma. Lagt er til vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar að fella niður fjárheimildir sem eru tilkomnar vegna erlendra samskipta að langmestu leyti og innkaupa erlendis. Þeir fjármunir sem þar eru sparaðir eru lagðir til hins almenna varasjóðs. Nemur endurmatið um 1.484,4 millj. kr. brúttó.

Virðulegi forseti. Ég hef hér í stuttu máli rakið nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarp við 2. umr.

Undir nefndarálitið skrifa Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.