149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:48]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því hér upp, og þetta er bæði pólitískt og jafnvel heimspekilegt úrlausnarefni, af hverju sjávarútvegurinn ætti einn atvinnugreina á Íslandi að greiða fyrir afnot af auðlindinni þegar sannanlega er gengið á hana með öðrum hætti; og ég nefndi þetta kúnstuga dæmi um James Bond mynd og Jökulsárlón. Ættu þá ekki allir sem hafa afnot af náttúruauðlindum á Íslandi að greiða þetta gjald? Ég er meira en tilbúinn í þá umræðu.

Ég var að lýsa þeirri skoðun minni að í grundvallaratriðum finnst mér hreinstefnufrelsishugmyndin, sem fælist í uppboðinu, höfða til mín. Ég var bara að segja það og benda á þá staðreynd að þegar þessi aðferð til að gera þetta var dregin í efa hér í dag þá komu menn hér upp, þar með talin hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, og fóru að tala um að setja mætti girðingar hér og girðingar þar, girða utan um þetta allt og skilyrða þetta frelsi á svo marga vegu þannig að það myndi uppfylla alls konar pólitísk sjónarmið. Það gætu verið byggðapólitísk sjónarmið, það gætu verið samþjöppunarsjónarmið og alls konar sjónarmið. Þá verð ég bara að segja um leið: Þú ert að tappa af fegurðinni við hverja girðingu sem þú setur upp. Á endanum ertu með kerfi sem er alveg eins líklegt til að enda í pólitísku úthlutunarsystemi, geðþóttaákvörðunum, og hvaða kerfi annað sem notað er til að úthluta slíkum gæðum. Uppboðsleiðin, með öðrum orðum, tryggir ekki fegurðina í frelsinu.