151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær bárust 43.243 undirskriftir sem eru ákall um að taka upp nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs. Í gegnum tíðina hefur sú orðræða verið uppi meðal sérfræðinga víða að ekkert sé hlustað á sérfræðinga. Ég hygg að rétt eftir hrun, þegar mikið vantraust var í garð sérfræðinga á öllum sviðum, hafi það verið rétt umkvörtun. En aftur á móti ber líka á því, í það minnsta í seinni tíð, að sérfræðingar sendi frá sér álit sem bera þess merki að þeir, sumir hverjir, taki málefnið ekki mjög alvarlega. Það kemur jafnvel í ljós í gagnrýni þeirra að þeir hafa ekki skoðað málið jafn vel og maður myndi ætla, að þeir hafa t.d. ekki lesið greinargerð eða jafnvel ekki gluggað í gildandi stjórnarskrá. Þannig finnst t.d. dæmi um umsögn á Alþingi, sem ég ætla að fara betur yfir í ræðu á eftir, þar sem finna má gagnrýni á ákvæði í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, frekar harða gagnrýni, sem er orðrétt nákvæmlega eins og í þeirri gildandi. Ég fer betur yfir það hér á eftir.

Mig langar í þessu sambandi að reyna að ná til fólks sem er á móti því að taka upp nýja stjórnarskrá. Ég skal hlusta á alla sérfræðinga sem taka málefnið alvarlega. Ég skal taka gagnrýni þeirra alvarlega. Ég vona að það verði normið að við tökum hvert annað alvarlega hvar sem við stöndum í málinu. Það er ófyrirséð nákvæmlega hvernig haga þurfi samtalinu við almenning, í kjölfar þess að breyta núgildandi plaggi, en þegar kemur að gagnrýni á plaggið er allt opið í því. Ég vona að sérfræðingar upplifi sig ekki útilokaða frá umræðunni. Ég mun alla vega ekki útiloka þá frá umræðunni.