Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Formaður Framsóknarflokksins vill leggja sérstakan skatt á fólk sem keyrir í gegnum göng. Ég held við þurfum aðeins að ræða þessa nýju leið Framsóknarflokksins til að fjármagna samgöngukerfið á Íslandi því hún er hvorki skynsamleg né réttlát.

Ofurskattur á tiltekna notendur kerfisins: Hér erum við annars vegar að tala um Vestlendinga sem hafa nú þegar borgað að fullu fyrir Hvalfjarðargöngin og hins vegar íbúa á svæðum sem búa við landfræðilega einangrun og mjög takmarkaða grunnþjónustu, ég gæti nefnt Vestfirði, Siglufjörð, Ólafsfjörð og Neskaupstað. Við hljótum að geta gert betur og ég vil nota tækifærið hér undir þessum lið til að skora á þingmenn, sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins, að gera formanninn sinn afturreka með þessi áform, þessar fráleitu hugmyndir um að íbúar sem keyra í gegnum göng en ekki yfir brú eða mislæg gatnamót séu skattlagðir sérstaklega umfram aðra. Þetta er gamaldags aðferðafræði, mismunun eftir búsetu og forsendubrestur fyrir Vestlendinga og aðra sem þurfa að nota þessa tegund samgöngumannvirkja — hrein svik við íbúa svo ég vitni í Valgarð Lyngdal Jónsson, forseta bæjarstjórnar Akraness. Þetta mál snýst um grunninnviði í landinu og hvernig við fjármögnum þá og það gengur ekki að formaður Framsóknarflokksins ætli einhvern veginn að koma aftan að fólki með refsisköttum, refsa fólki fyrir að búa þar sem það býr. Hvað varð um samvinnuna? Samtalið? Að hlusta á fólkið í landinu og finna skynsamlegar lausnir á málunum? Það er verkefni okkar í þessum sal. Það er ábyrgð okkar og undir þeirri ábyrgð verðum við að rísa.