154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er ágætisplagg sem er að koma hérna. Á síðasta kjörtímabili var ég áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd og var að glíma við tvær samgönguáætlanir, ár eftir ár, samgönguáætlun var uppfærð á síðasta kjörtímabili. Það var áhugavert að fylgjast með því hvernig þróunin á henni hefur verið, þeirri sem þessi ályktun mun uppfæra, koma í staðinn fyrir. Þar sem ég er líka í fjárlaganefnd áttar maður sig á því að upphæðirnar sem hafa verið í samgönguáætlun eru ekki uppfærðar með tilliti til verðlags.

Það fyrsta sem ég myndi vilja bæta við í þessa umræðu er varðandi þær áætlanir sem eru samþykktar hérna á þingi, alveg eins og þegar við samþykkjum lög sem búa til ákveðna þjónustu eða réttindi eða hvað sem það er, að það þarf að sjálfsögðu að verðmeta þá þjónustu eða í þessu tilviki framkvæmdir þegar til þeirra er síðan stofnað. Þó að áætlunin standist eða standist ekki þá er það ályktun þingsins að fara í þessar framkvæmdir. Vissulega getur það verið svo að eitthvað breytist, ekki bara kostnaðurinn heldur kannski tilhögun framkvæmda, t.d. þegar brú er breytt í jarðgöng, og þá væri kannski eðlilegt að koma til þingsins og segja: Heyrðu, það er smá vesen, við vorum að pæla í brú hérna en okkur fannst sniðugra að gera þetta að jarðgöngum og það hækkar verðmiðann. Það sé gert þannig að Alþingi hafi eitthvað um það að segja. En almennt séð, ef Alþingi er að samþykkja þessar framkvæmdir með þessum upphæðum og vikmörkum sem eru hérna, sem er mjög jákvætt að sjá, og svo lengi sem það er innan þeirra marka þá er það einfaldlega hlutverk ríkisstjórnarinnar að fjármagna það sem Alþingi samþykkir. Ef ríkisstjórnin telur sig ekki geta fjármagnað ályktun Alþingis eða lög frá Alþingi eða hvað sem það er, þá á ríkisstjórnin að koma og greina Alþingi frá því í staðinn fyrir að seinka framkvæmdum fram og til baka út af hinum og þessum ástæðum. Það þarf ákvörðun Alþingis til að breyta ákvörðun Alþingis. Framkvæmdarvaldið getur ekki breytt ákvörðunum Alþingis án aðkomu Alþingis.

Þetta er vandamál sem ég hef verið að glíma við sérstaklega í sambandi við samgönguáætlun af því að við erum að sjá sömu framkvæmdirnar aftur og aftur á samgönguáætlun án þess að þær klárist. Við erum að sjá sömu loforðin aftur og aftur. Loforð um sömu göng í kosningum eða jafnvel í samgönguáætlun en þau komast aldrei til framkvæmda. Þetta er gríðarlega stórt vandamál og ég myndi vilja laga það á ákveðinn hátt, sem ég hef kallað hið fullkomna samgöngukerfi, hef orðað það þannig. Það væri hægt að setja upp landið í heild sinni og hvernig við myndum vilja hafa samgöngukerfið, flugvelli, hafnir, vegi, lestar meira að segja, jarðgöng o.s.frv., og teikna það allt inn. Það væri á forsendum nærsamfélagsins í rauninni þannig að hver landshluti, hvert sveitarfélag o.s.frv. er að skipuleggja samgöngur á sínu svæði sem saman púslast í heild sem Alþingi myndi kannski samþykkja sem langtímamarkmið, ekki með neinum dagsetningum eða neinu svoleiðis heldur bara segja: Þetta er viðmið sem við ætlum að ná. Næsta skref í því er síðan að taka muninn á stöðunni eins og hún er núna og þessari fullkomnu samgöngumynd og forgangsraða mikilvægustu verkefnunum sem þarf að klára til þess að komast í áttina að hinu fullkomna ástandi. Þar skiptir forgangsröðun nærsamfélagsins máli, ekki þingsins.

Ég tel að eina hlutverk þingsins í rauninni í samgönguáætlun sé að taka við forgangsröðun hvers landshluta fyrir sig og segja: Já, þetta er forgangsröðunin og við ætlum að segja að fjármögnunin sem við höfum efni á, miðað við þær greiningar sem eru gerðar í efnahagsráðuneytinu og annars staðar, mun skila því að framkvæmdirnar klárast á þetta löngum tíma. Eina hlutverk okkar í rauninni er að fjármagna forgangsröðun nærsamfélagsins, hugmynd þess um hvað er hið fullkomna samgöngukerfi. Vissulega þarf ákveðnar samningaviðræður af því að eitt sveitarfélag, einn landshluti, getur ekki ákveðið veg sem endar einhvers staðar annars staðar í öðrum landshluta sem vill ekki taka við þeim vegi til að halda honum áfram, það væri ekki hægt. Þetta er því pínulítið flókið en þessi samvinna nærsveitarfélaga býr til í rauninni gullstandardinn, ef við getum orðað það þannig. Það gæti, held ég, verið miklu skilvirkari leið til að klára þessar framkvæmdir sem birtast hérna alltaf aftur og aftur, því að miðað við forgangsröðun framkvæmdar, hvort sem hún er ofarlega eða neðarlega, þá kemur að lokum að henni og fjármögnunin mun skila sér af því það er einfaldlega vitað að hún er næst á dagskrá. Það er búið að búa til forgangsröðunina og fjármagnið kemur. Ef þetta er dýr framkvæmd eins og Fjarðarheiðargöng eða eitthvað svoleiðis þá kemur fjármagnið, það er vitað fyrir fram, það kemur milljarður á ári eða hálfur milljarður á ári eða hvernig sem það er. Það safnast bara saman þegar það kemur og að lokum mun framkvæmdin klárast í staðinn fyrir, eins og aðstæðurnar eru núna, að henni er sífellt frestað. Það verður aldrei neitt af henni.

Það er, held ég, vandamál stjórnmálanna eins og þau leggja sig, að klára ekki loforðin. Vissulega er það þannig að aðstæður breytast og gullstandardinn í samgöngum sem við sjáum fyrir okkur breytist kannski með nýrri tækni eða ýmiss konar uppfærslum sem myndu kannski gera lestarsamgöngur eða flugsamgöngur auðveldari á Íslandi og það myndi þá breyta hugmyndinni um það hvernig fullkomið samgöngukerfi er. Og það má uppfæra að sjálfsögðu, það er ekkert óeðlilegt við það. En það er alltaf á forsendum þeirra sem ráða því og það er að mínu mati ekki þingsins að ráða forgangsröðuninni. Það er þingsins að stimpla forgangsröðunina og fjármagna hana, segja: Já, það er búið að votta það að forgangsröðunin kemur frá nærsamfélaginu á hverjum stað. Það setur þessi jarðgöng framar þessum vegi eða öfugt. Við ætlum ekki að skipta okkur af því, kemur okkur ekki við. Það kemur okkur bara við að setja pening í þær framkvæmdir.

Núverandi bútasaumskerfi — í alvörunni, það er kjördæmapot í samgönguáætlun sérstaklega, hefur alla vega verið það sögulega og er það alveg tvímælalaust enn þá. Sumar framkvæmdir hefðu ekki komist til framkvæmda ef hinn eða þessi ráðherra hefði ekki verið í ríkisstjórn og ef einhver annar ráðherra hefði verið þá hefði verið einhver önnur framkvæmd. Það er ýmislegt tekið til hliðar og fram hjá og gert að PPP-verkefni til að afsaka það að það sé ekki inni í samgönguáætlun. Í samgönguáætlun er sameiginlegt fjármagn sem við notum til uppbyggingar samgangna um allt land. Það að taka eitthvað til hliðar og fjármagna það sérstaklega er pínu spes. Af hverju fá þá ekki allir aðrir að taka eitthvað til hliðar og fjármagna sérstaklega eins og Vaðlaheiðargöng eða eitthvað svoleiðis? Ég er viss um að á Suðurlandi og Austurlandi og Vesturlandi eru hugmyndir um samgönguframkvæmdir til að taka sérstaklega til hliðar og fjármagna utan þess sameiginlega fjármagns sem við erum með í samgönguáætluninni, tvímælalaust, örugglega. En það er ekki góð aðferð að taka einhvers staðar úr miðri forgangsröðuninni og setja fyrir ofan allt hitt. Þannig eigum við ekki að starfa hér á þingi.

Ég tek því þessu plaggi varlega, ég veit að fjármögnunin hefur alltaf verið erfið. Ég horfi frekar á forgangsröðunina af því að ég held að hún sé svo sem alveg rétt, kemur í ljós í nefndarvinnunni hversu rétt hún er og hversu vel hún er unnin miðað við þarfir samfélagsins. En ég gef ekki mikið fyrir að allar framkvæmdirnar náist endilega.