154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar eiginlega að byrja á því að taka undir þau orð hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur þegar hún sagði hérna áðan að samgönguáætlun snerist ekki raunverulega bara um samgöngur heldur hefði áhrif á svo fjölmarga aðra þætti í daglegu lífi fólks; öryggi, heilsu, loftslag o.s.frv.

Ég var að koma til landsins núna eftir tveggja daga fund, vinnufund á vegum Norðurlandaráðs þar sem ég er fulltrúi Íslands í vinnu sem lýtur að því að taka ákvörðun um að gera tillögu um hvort taka eigi upp og endurskoða Helsingforssáttmálann, sem hinn formlegi samningur um samstarf Norðurlandanna sem Norðurlandaráð hvílir á. Þar hefur eðli málsins vegna töluverð áhersla verið lögð á öryggis- og varnarmál vegna þeirra tíma sem við lifum nú og vegna þess að það er ekkert um það í sáttmálanum. En það hefur líka töluvert púður farið í að ræða akkúrat um samgöngumál í þessari víðu mynd og hvort ástæða sé til að forma slíka samvinnu á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar enn frekar. Það er engin niðurstaða komin í það, ég nefni þetta bara hér til að árétta hvað þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur.

En það er samgönguáætlunin hérna núna og við stöndum kannski frammi fyrir því, eins og hefur verið komið inn á í fjölmörgum ræðum hér í dag sem ég hef aðeins náð að renna yfir, að í fyrsta lagi ríkir töluverð óvissa um fjármögnunina. Það er auðvitað stóra spurningin og verður vinna þingsins, umhverfis- og samgöngunefndar með ráðherra í ríkisstjórn og svo í tengslum við fjárlagavinnu og í tengslum við fjármálaáætlun og bara næstu árin, að búa svo um hnútana að þessi ágæta áætlun, sem er unnin býsna þétt og reynt er að taka tillit til fjölmargra þátta, nái framgangi, af því að eins og hér hefur komið fram hafa margir þingmenn lýst yfir vonbrigðum með það að áður samþykktar framkvæmdir hafi ekki raungerst vegna skorts á fjármunum. Við vitum jú öll að þetta eru gríðarlegir peningar sem fara í þessar framkvæmdir.

Kollegar mínir úr hinum ýmsu kjördæmum hafa eðli málsins vegna fjallað um þau mál sem helst brenna á fólki í þeirra heimabyggð, hvort sem um er að ræða Vestfirði eða Austurland eða Suðurland. Listinn er auðvitað gríðarlega langur og það er erfitt að segja að eitthvert svæði sé undanskilið því að þar er brýn þörf á einhverjum úrbótum, annars vegar vegna þess að það hefur skort á uppbyggingu innviða, verkefnin hafa verið neðarlega í forgangsröðinni eða þá að dreifing ferðamanna og aukið álag þeirra vegna hefur breytt myndinni tiltölulega hratt.

Mig langar hins vegar sem þingmaður Reykvíkinga, og kemur svo sem ekki á óvart, að beina sjónum að höfuðborgarsvæðinu og þá t.d. sáttmálanum sem fær nú aðeins pláss í þessari áætlun. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gera athugasemd við það að ekki fer mikið fyrir umfjöllun um borgarlínu í þeim fimm markmiðum sem samgönguáætlunin markar stefnu um. Þar er t.d. talað um að þróun samgangna mæti þörfum samfélagsins þar sem áhersla er á umhverfis- og loftslagsmál. Þar kemur borgarlína sterkt inn. Hún kemur sterkt inn í annan þátt sem lýtur að breyttum ferðavenjum, nýsköpun og þróun í samgöngumálum, þannig að hún uppfyllir eiginlega — og öryggi og fækkun slysa held ég að sé nú ósköp auðvelt að tengja við þetta líka. Þannig að borgarlínan er ein sú nýjung sem á eftir að skipta sköpum í bætingu í samgöngumálum okkar.

Því tengt er líka gerð athugasemd við það og margir sakna, að lög um flýti- og umferðargjöld hafa ekki verið lögð fram á Alþingi. Þau eru náttúrlega nátengd þessu og eins og komið hefur verið inn á hérna vantar skýra sýn á hvaða fjármögnunarleiðir, ekki bara í fjármögnun samgöngusáttmálans heldur í fjölmörg verkefni víða um landið og það er mikilvægt að ná niðurstöðu í þau mál.

Samgöngusáttmálinn er auðvitað sameiginlegt mál allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara Reykvíkinga. Þetta er mikilvægur sáttmáli, löngu tímabær, og það er óþarfi að fjölyrða um það af hverju þessi mál hafa setið á hakanum hér, það var bara ákvörðun sem tekin var á sínum tíma, eins og ég ítreka enn og aftur. Ekkert landsvæði er of vel haldið í þessum málum og sú ákvörðun var einfaldlega tekin á sínum tíma að byggja upp ákveðna þætti hér á höfuðborgarsvæðinu, almenningssamgöngurnar fyrst og fara svo í stofnvegaframkvæmdir og annað slíkt. En þessi sáttmáli er sem sagt til að mæta þessum áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna aukins umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu öllu og svo vegna loftslagsbreytinga. Borgarlínan, sem er orðið verulegt bitbein af ýmsum ástæðum — það gleymist stundum í þeirri umræðu að borgarlínan eins og við erum að horfa á núna er málamiðlun. Það er málamiðlun margra hugmynda sem fram komu. Þannig að þegar menn tala um að hún sé of dýr og of viðamikil og stór og að hægt sé að gera þetta betur og ódýrara og einfaldara og hvað ekki, þá þarf kannski að skoða þá heildarmynd, vegna þess að hugmyndafræðin byggir eingöngu á því að það sé hugsað um þessar samgöngur á svæðinu sem heildstætt kerfi allra sem vilja komast á milli og að eitt útiloki ekki annað.

Vissulega hefur samgöngusáttmálanum verið gagnrýndur fyrir kostnaðaraukningu og þar spilar ýmislegt inn; áætlanagerð hefur ekki verið fullnægjandi í upphafi eins og gerist oft, aðstæður hafa breyst, það er verðbólga, það er kostnaðarauki, einhver verkefni hafa stækkað, þau hafa ekki bara orðið dýrari, þau hafa stækkað o.s.frv., en engu að síður standa þessi verkefni fyrir sínu. Ég verð að segja, af því að ég veit að hæstv. samgönguráðherra hefur setið undir ja, gagnrýni á sáttmálann frá samstarfsfólki sínu í Sjálfstæðisflokknum, að ég vona að það verði ekki til þess að það sé of langt gengið í því að fresta framkvæmdunum af því að það væru virkilega bagalegar fréttir.

Sú vísa er heldur aldrei of oft kveðin að í borgum þar sem almenningssamgöngur eru í hávegum hafðar, þar sem þær þjóna þörfum íbúanna, eru bílstjórar einkabílanna líka ánægðir. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli og er einfaldlega stórfurðulegt að þurfa að endurtaka þetta aftur og aftur. Ef vel ætti að vera myndu almenningssamgöngur á landsvísu skipa heiðurssæti í samgönguáætlun stjórnvalda, hvort sem það er til fimm ára eða 15 og ég trúi því reyndar að sú verði raunin þegar fram í sækir. Þetta hefur áhrif á atriði á borð við val á búsetu, val á samgöngumáta, á umferðarþunga, umferðaröryggi og síðast en ekki síst á markmið okkar í loftslagsmálum og þetta er allt saman nátengt. Þetta eru allt áskoranir sem samhliða áskorunum í heilbrigðismálum eru stærstu og mikilvægustu verkefnin sem ríkisstjórnir okkar tíma standa frammi fyrir og verður ekki slitið í sundur hvert frá öðru.

Ég ætla ekki að hafa meiri orð um þetta plagg að sinni, óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í sínum störfum og vona að þau störf falli vel saman með þeim sem sýsla með fjármálin og við sjáum metnaðarfull markmið okkar raungerast í þessu sambandi.