149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:43]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég er svolítið á sama stað og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi lögreglustjóri, að mér þótti annt um gömlu lögin, þó að vissulega megi segja að vegna breytts samfélags og nýrrar tækni þurfi að endurskoða og bæta ýmsu við í lögin. En ég er ekki viss um að skrifa þurfi ný umferðarlög. Ef menn ætluðu að gera það yrði það alla vega að vera til bóta, en mér sýnist sum ákvæði í upphaflega frumvarpinu hafi alls ekki verið til bóta. Nefndin hefur lagað sumt.

Ég ætla að fjalla aðeins um tvennt í þessu sem hefur verið rætt um af hv. þingmönnum á undan mér, annars vegar stóra hjálmamálið og hins vegar hvenær menn eru undir áhrifum. Ef við byrjum á því vil ég koma því frá mér hér, af því að ég horfi á hv. þm. Bergþór Ólason, sem ég hef miklar mætur á, að þá er þetta sennilega einhver vonlausasta breytingartillaga sem ég hef séð í lengri tíma, og afleit. Ég stend allt í einu í þeim sporum að vera sammála hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, sem full ástæða er til að hafa almennt áhyggjur af en ekki í þessu máli.

Ég er þannig gerður að ég vil helst komast hjá refsingum ef ég mögulega get og vil alls ekki refsa mönnum fyrir að vera undir áhrifum, ef þeir eru ekki undir áhrifum. Það segir sig bara sjálft. Það þarf eiginlega ekkert að ræða það nánar að mínu mati. Ég lenti í þessum hremmingum með fyrri umferðarlögin í merkilegu máli í Hæstarétti Íslands, þar sem maður hafði neytt kannabis tveim mánuðum áður en hann var tekinn af lögreglu og þá reyndist vera niðurbrotsefni í þvagi en ekkert í blóði. Ég hélt mjög innblásna ræðu í Hæstarétti, sagði að það gengi ekki upp. Dómstóllinn yrði bara að grípa inn í. Það gengi ekki upp að löggjafinn segði að viðkomandi hefði verið undir áhrifum þegar hann var ekki undir áhrifum og öll rannsóknargögn sýndu það og allir sérfræðingar sem komu fyrir dóm sögðu að viðkomandi hefði ekki verið undir áhrifum. Það var bara þannig.

Það dugði ekki. Þessi innblásna ræða dugði ekki nema til hálfs. Hún dugði að því leyti að Hæstiréttur ákvað að svipta manninn ekki ökuréttindum og stökk þar á heimildarákvæði í umferðarlögunum, sem ég held að hafi verið 104. gr. frekar en 102. gr. þá, en sektaði og sagði að löggjafinn hefði ákveðið að viðkomandi hafi verið undir áhrifum þó að hann hafi ekki verið það. Hnykkti jafnvel á því að þetta myndi bara duga einu sinni fyrir viðkomandi. Svipting yrði næst ef hann tæki kannabis tveim mánuðum áður, en hann æki síðan. Ég held því að þetta sé bara mjög góð breyting. Að segja einfaldlega, eins og rétt er, að viðkomandi sé ekki undir áhrifum og þar af leiðandi sé þetta refsilaust og ég tala nú ekki um að fara að svipta menn leyfi til aksturs.

Hitt atriðið varðar hjálmanotkun. Þá lendi ég aftur í þeirri stöðu að mínum mönnum í umhverfis- og samgöngunefnd datt í hug að hækka notkun upp í 18 ár. — Ekki hv. þm. Bergþór Ólason, segir hann. Ég er allt í einu sammála mönnum, eins og hv. þm. Andrési Inga Jónssyni sem venjulega hefur viljað hafa vit fyrir nánast öllum, og vinum mínum í Pírötum. Ég hefði viljað ganga miklu lengra niður og hafa það eins og var í gamla daga þegar ég var barn, þá tók ég barnapróf 12 ára. Síðan kom unglingadeild og ég hefði viljað hafa hjálmaskyldu til 12 ára, því að þá eru börn ekki jafn þróuð og þau verða síðar til að hafa stjórn á svona tækjum. Ég hefði viljað hafa hjálmaskyldu bundna við 12 ár og eins og var oft í skólum í gamla daga, það giltu allt aðrar reglur um unglingadeildirnar en barnadeildirnar. Það hlýtur að vera hægt núna úr því að það var hægt í gamla daga, en gera þarf greinarmun þar á.

Svo er það núna bara þannig að hjólreiðar eru ekki sama og hjólreiðar. Þegar ég hjóla í vinnuna, sem gerist stundum, á kvenhjóli með körfu framan á, þá hjóla ég ekki hratt. Ég hugsa að ég hlaupi hraðar eða gerði það alla vega á yngri árum. Ekki ætlum við að skylda skokkara til að hafa hjálm. Það horfir allt öðruvísi við þegar menn eru komnir á keppnishjól eða fara í æfingar fyrir slíkt og fara á 40 km hraða. Ég myndi miklu frekar telja að hjálmaskylda fyrir eldri væri þá bundin við einhvern hraða á hjólinu. Það er nefnilega þannig að hjólreiðar eru ekki sama og hjólreiðar, það er bara þannig.

Ég hef ekki séð nein gögn um það varðandi hjólreiðar — sem eru orðnar mjög vinsælar og útbreiddar og margir hjóluðu svo sem þegar ég var barn — að einhver höfuðmeiðsl séu algeng í kringum þær. Ég hugsa að höfuðmeiðsl og önnur meiðsl séu algengari á fólki sem gengur á Helgafell og Úlfarsfell. Hvaða skilaboð ætlar löggjafinn að senda til þess fólks? Eigum við ekki að hafa olnbogahlífar og hnéhlífar? Ég held að ekki sé hægt að líkja þessu við öryggisbelti í bifreið. Ef hjólreiðamaður kemst jafn hratt og bifreið finnst mér að hann eigi að vera með hjálm, ekki binda það við neinn aldur, heldur eigi allir sem hjóla hratt að vera með hjálm, sem ég held að allir séu með.

Þannig horfði ég á þessi hjálmamál og fíknimál. Við eigum auðvitað að bera fulla ábyrgð á sjálfum okkur í þessu eins og öllu öðru, þá tala ég um hjálminn. Ég get alveg skilið 15 árin, get hugsanlega fallist á 16 ár. En ég held að menn eigi að fara varlega í þetta og ég held að miklu meiri hagsmunir séu í því að við hjólum meira og oftar heldur en að hugsa að einhver gæti dottið og skaðast eða meitt sig, sem auðvitað gerist alltaf. Það gerist líka á göngu, gerist líka á hlaupum, gerist líka þegar við erum að þvælast um alla hóla, holt og hæðir. Það er hluti af lífinu.

Kannski er öruggast að við förum ekkert út fyrir hússins dyr, höfum engin horn í íbúðinni og setjum svamp allan hringinn. Ég hef bara ekki áhuga á því. Auðvitað gildir svolítið annað um börn, en við erum ekki alveg sammála um það. Ég held að ég sé örugglega ekki sammála flestum hér um hvað er barn. Ég hef alltaf miðað barn við sakhæfisaldurinn, það tekur ekki ábyrgð á eigin gerðum fram að þeim tíma. Við erum hér með börn orðið langt fram eftir aldri. Við erum börn þegar kemur að áfengiskaupaaldri, mjög langt fram eftir aldri. Ég er ekki á þeim stað. Menn geta kallað þetta ábyrgðarleysi, en ég held að það sé ekki. Ég held að við í þessum sal séum farin að taka of mikla ábyrgð á öllu fólki í landinu sem ég held að sé ekki til góðs þegar á heildina er litið.

Ég ætla ekki að vera bara neikvæður. Auðvitað er margt til bóta. Það er eitt í lokin sem mér finnst skrýtið í frumvarpinu sem enginn hefur viljað breyta, að nú hafa mörkin verið dregin niður úr 0,5‰ í 0,2. Ég hef spurt: Af hverju? Hvað hafa menn fyrir sér í því að þeir sem eru með 0,2–0,5‰ í blóðinu séu óhæfir til aksturs eða verri en þeir sem eru bara með 0,1‰?

Ég hef ekki séð nein gögn um það. Ég held að alveg sé ástæðulaust að vera að breyta því nema við höfum eitthvað sem segir að svo sé og að einhverjar rannsóknir sýni það — þó að ég þoli nánast ekki það orð — og eitthvað sem segir mér það. Ég held að þetta sé að vísu allt einhver hluti af minnkandi þolinmæði, eins og menn kalla útlensku, hæstv. forseti, „zero tolerance“ sem er mikið fínt orð, sem ég held líka að hafi verið ástæðan fyrir því að óheimilt var að aka bifreið þó að niðurbrotsefni væru bara í þvagi. Þetta er allt hluti af því sem kallast á útlensku „zero tolerance“, hæstv. forseti, eða engin þolinmæði.

Ég upplifi það einhvern veginn í samfélagi okkar að við erum að verða óþolinmóðari gagnvart þeim sem eru öðruvísi en við eða gera ekki það sem okkur finnst skynsamlegast. Þetta er úti um allt í samfélaginu og eina sem okkur dettur alltaf í hug er að beita einhvers konar viðurlögum eða refsingum. Ég held að það sé bara ekki rétt þróun. Ég lít svo á að það væri miklu betra fyrir samfélagið í heild til lengri tíma að við berum aðeins meiri ábyrgð á sjálfum okkur. En ég hef auðvitað engan áhuga á því ef menn eru hættulegir. Ef menn komast að því að menn séu hættulegir með 0,2‰ í blóðinu í akstri, þá set ég mig ekki á móti refsingum við því. En enginn hefur sagt mér það, enginn sýnt mér það eða sannað það fyrir mér, ekki nokkur maður. Þetta er bara hluti af þessari óþolinmæði. Menn segja fyrir fram: Við þolum ekki að einhver smakki áfengi eða einhver önnur efni og aki bifreið.

Ég verð að hafa einhver betri gögn en svona óþolinmæði gagnvart slíku. Þá getum við alveg eins haft það 0,0‰, sem verður auðvitað næst þegar lögin verða endurskoðuð. Þróunin er alltaf í þá átt. Og þróunin verður sú að allir verða að vera með hjálm til að aka bifreið, til að aka hjóli, jafnvel til að fara út að skokka. Ég ætla ekki að verða mikill þátttakandi í því og ég held að við ættum að hugsa þessi atriði betur, hæstv. forseti.