149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

802. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum. Frumvarpið var upphaflega flutt af þingmönnum sem sitja í Þingvallanefnd. Eftir 1. umr. fór það til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og sú nefnd hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti og umsagnir bárust frá þremur aðilum. Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að reka atvinnutengda starfsemi innan staðarmarka þjóðgarðsins á Þingvöllum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Einnig er lögð til gjaldtökuheimild vegna gerðar slíkra samninga, umsjónar með þeim og eftirlits.

Ég ætla ekki að rekja nefndarálitið frá orði til orðs. Fyrsti kaflinn fjallar um verndarhagsmuni en fyrir nefndinni kom fram að með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins kynni að vera nauðsynlegt að takmarka þann fjölda aðila sem fær aðstöðu innan tiltekinna svæða þjóðgarðsins og velja á milli aðila sem óska eftir slíku. Fram kom að slíkt fyrirkomulag er að finna í gildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð en þar sem enn hefði ekki verið sett atvinnustefna fyrir hann og mótuð skilyrði fyrir því að aðilar mættu stunda atvinnu innan þjóðgarðsins hefði ekki verið unnt að framfylgja þeirri takmörkun enn sem komið er. Jafnframt kemur fram að fyrirmyndin að þessu frumvarpi er sótt í lög um Vatnajökulsþjóðgarð.

Næsti kafli er um mótun atvinnustefnu og markmiðið með frumvarpinu er að setja skilyrði um hvaða kröfur þurfi að uppfylla til að stunda viðkomandi atvinnustarfsemi. Hins vegar fer nú fram vinna á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við mótun tillagna um sérleyfissamninga vegna nýtingar á landi í eigu ríkisins. Þegar þeirri vinnu lýkur er mikilvægt að nýta hana sem grundvöll frekari stefnumótunar um fyrirkomulag við úthlutun takmarkaðra gæða í þjóðgörðum, en sú vinna gæti leitt til frekari lagabreytinga. Meiri hlutinn áréttar að með þessu frumvarpi er verið að heimila Þingvallanefnd að setja skilyrði fyrir atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins og móta atvinnustefnu vegna reksturs þar. Skilyrðin geta verið breytileg eftir eðli starfseminnar. Fyrir nefndinni kom fram að eðlilegt væri að horfa til markmiða um sjálfbærni og skilyrða, svo sem um þekkingu á náttúru og menningarminjum þjóðgarðsins, þekkingu og færni í þeirri þjónustu sem á að veita, auk þess sem uppfylla þyrfti öryggis- og gæðakröfur. Þá væri líka mikilvægt að atvinnustefnan skapaði hvata til nýsköpunar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að rökin fyrir því að lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum gangi framar lögum um þjóðlendur séu þau að lítill hluti þjóðgarðsins sé innan þjóðlendna, en fyrir nefndinni kom fram að það væri enn fremur til einföldunar þannig að ekki þyrfti að leita leyfis sveitarstjórnar eins og gert er ráð fyrir í lögum um þjóðlendur, enda hafa sveitarstjórnir aðra aðkomu að málinu.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða tillögu um að lögin öðlist ekki gildi fyrr en að ári liðnu, 1. júní 2020. Er það gert í ljósi reynslunnar úr Vatnajökulsþjóðgarði þar sem reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að hafa góðan tíma til undirbúnings. Hins vegar er lögð til orðalagsbreyting í setningu eða tilfærsla á orðum til að skýra það að enginn vafi leiki á því að Þingvallanefnd getur gert tillögu að reglugerð sem ráðherra síðan samþykki. Það varðar gjaldtöku fyrir leyfisveitingu og umsýslu við afgreiðslu á leyfum til þess að stunda atvinnurekstur í þjóðgarðinum.

Meiri hlutinn í nefndinni leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum tveimur breytingum. Undir nefndarálitið skrifa Helga Vala Helgadóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson og Þórarinn Ingi Pétursson. Jón Steindór Valdimarsson skrifar undir álitið með fyrirvara.