150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu minni um samgönguáætlun vil ég koma aðeins inn á borgarlínuverkefnið, sem við höfum nú rætt þó nokkuð, og hlut ríkisins í því hluthafasamkomulagi sem á að fara að gera þar sem ríkissjóður kemur til að standa straum af u.þ.b. 75% af kostnaðinum eða 105 milljörðum af 120. Það eru gríðarlega háar upphæðir og margt sem skiptir verulegu máli þegar kemur að því að menn viti nákvæmlega hvað þeir fá út úr verkefninu og hvað það kostar þegar upp er staðið.

Lagt er upp með að ríkissjóður leggi til Keldnalandið svokallaða sem yrði síðan selt og andvirðið þá nýtt í þessa framkvæmd. Eitt hefur ekki verið rætt hér, sem mér finnst nauðsynlegt að koma inn á, og það er sá kostnaður sem fylgir því að flytja núverandi starfsemi ríkisins sem er á Keldum, húsnæði og rannsóknastofur, burt af svæðinu og finna því nýjan stað. Það er að sjálfsögðu kostnaðarsamt. Nýbyggingarkostnaður er töluverður og því fylgir kostnaður að fá nýja lóð fyrir starfsemina annars staðar, þá annaðhvort hjá Reykjavíkurborg eða í nágrannasveitarfélögunum. Öllu þessu fylgir kostnaður, annaðhvort þarf að kaupa eða leigja lóð og svo er flutningskostnaður. Það kostar líka að stöðva þennan rekstur. Rekstrarstöðvun viðkomandi stofnunar kostar peninga. Það er eitthvað sem hefur ekki verið útfært. Þetta eru örugglega einhverjir milljarðar, ég held að óhætt sé að segja það vegna þess að það þarf að finna staðsetningu og lóðaverð er ekki það lágt þannig að það mun kosta töluverða peninga.

Mér finnst það galli á þessu samkomulagi að ekki skuli vera rætt um það hver eigi að bera þann kostnað. Á ríkissjóður að leggja landið til með tilheyrandi verðmætum og síðan einnig að standa straum af því að flytja starfsemi sína burt og byggja hana upp annars staðar? Mér finnst það ekki sanngjörn skipti eða sanngjarnt fyrirkomulag fyrir ríkissjóð. Það er eitthvað sem er brýnt að ræða.

Auk þess þarf að ræða í því samhengi að það kemur að því að byggja þarf nýjan spítala. Þó að verið sé að gera það í dag hafa ýmsir stjórnmálamenn og stjórnarliðar sagt að það þurfi að fara að huga að landi fyrir nýjan spítala eftir einhver 20 ár, þó að sá nýi sé ekki risinn núna. Þá hafa menn horft til Keldnalandsins og það verður greinilega ekki að veruleika. Hvað á þá að koma í staðinn? Það er eitthvað sem þarf að ræða, auk þess að ræða eign í þessu samhengi.

Ég vildi síðan koma að hlutafélaginu sem slíku. Við eigum náttúrlega eftir að ræða það hér undir sérstökum lið vegna þess að það er sérstakt frumvarp og þá þarf að skýra lokauppgjör. Það er eitthvað sem er algerlega nauðsynlegt vegna þess að það getur t.d. gerst, og er heimild fyrir því, að sveitarfélög, nágrannasveitarfélögin, taki ákveðna framkvæmdaþætti út úr félaginu eins og vegi og brýr. Framkvæmdakostnaðurinn getur þá verið meiri en sem nemur þessum 25% eignarhlut sem sveitarfélögin eiga í félaginu. Þá kaupa sveitarfélögin þann hlut út á markaðsverði. Ég hefði talið að það væri eðlilegt og þá yrði horft til umferðar og hagkvæmni samgönguframkvæmdarinnar. Síðan er annað sem þarf að liggja fyrir og það er lega og umfang samgöngumannvirkjanna sem tengjast þessari borgarlínu svo að hægt sé að gera raunhæft mat á kostnaði.

Herra forseti. Það er margt sem er óljóst varðandi borgarlínuna og ég vildi koma því sérstaklega að í þessari ræðu. Ég sé að tími minn er liðinn, herra forseti, og ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá svo að ég geti lokið umfjöllun minni um borgarlínuna í þessari samgönguáætlun.